136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Árna M. Mathiesen, sem er 1. þm. Suðurk., hver viðbrögð hans eru við þeirri afstöðu sveitarfélagsins Ölfuss, sem fram hefur komið í tengslum við þetta Helguvíkurverkefni, að leggjast eindregið gegn fyrirhuguðum línulögnum frá Hellisheiði út á Reykjanes. En þeirri línulögn er m.a. ætlað að fæða þetta hugarfóstur, tilvonandi fyrirhugað álver í Helguvík. Þetta kemur fram í umsögn til Skipulagsstofnunar í tilefni af áformum Landsnets um að leggja suðvesturlínu út á Reykjanesskagann.

Í blaðaviðtölum hefur verið haft eftir sveitarstjóra Ölfuss, Ólafi Áka Ragnarssyni, að þessi línulögn — þ.e. að sjúga upp allt rafmagn af Suðurlandi og Hellisheiði og flytja út á Reykjanesið til Helguvíkur — muni verða hvorki meira né minna en banabiti iðnaðar- og atvinnuuppbyggingar á svæðinu í kringum Þorlákshöfn eða í sveitarfélaginu Ölfusi. Ég vil spyrja hv. 1. þm. Suðurk. hver viðbrögð hans við þessu eru.