136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir skoraði á mig að beita mér fyrir því að leynd á orkuverði til stóriðjuvera verði aflétt. Það eina sem ég get gert fyrir hv. þingmann er að bera þau boð til hæstv. fjármálaráðherra sem fer með bréfið í orkufyrirtækin og getur hugsanlega komið þessu til leiðar. Skemmsta leiðin væri auðvitað sú að hv. þingmaður, sem er í flokki með hæstv. fjármálaráðherra, talaði bara við hann sjálf, milliliðalaust. Það gengur alltaf best.

Það er ekki oft, herra forseti, sem ég vitna í sjálfan mig og ræður mínar. Það ætla ég þó að gera núna, með leyfi hæstv. forseta. Háttvirtur þingmaður sagði að ég og þingmenn sem hér hafa talað í kvöld værum að búa til falskar væntingar með því að lofa Suðurnesjabúum að þessi fjárfestingarsamningur mundi ráða bót á atvinnuleysinu á Suðurnesjum. Það hef ég aldrei sagt og af því tilefni, herra forseti, ætla ég að vitna í ræðuna sem ég flutti hér áðan. Með leyfi forseta, þá sagði ég:

„Þessi áform munu að sjálfsögðu ráðast af ýmsum öðrum þáttum en fjárfestingarsamningi einum við ríkið. Fjármögnun mun þar sennilega ráða hvað mestu og einnig það hvernig tekst að afla raforku til verksins.“

Það liggur alveg ljóst fyrir að ég hef aldrei sagt að þessi fjárfestingarsamningur muni gera það að verkum að álverið rísi. Ég hef hins vegar sagt að hann sé forsenda þess að fimm bankar gangi til viðræðna um fjármögnun verksins. Ég hef aldrei lofað því, hvorki Suðurnesjamönnum né öðrum, að þetta eitt sem við hugsanlega samþykkjum hér á næstu dögum, muni leiða til þess að álverið rísi. Ég hef slegið tvenns konar varnagla, þ.e. fjármögnun og (Forseti hringir.) hvort tekst að afla raforku. Það liggur alveg ljóst fyrir.