136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það veldur mér nokkrum vonbrigðum að hæstv. ráðherra skuli ekki í andsvari sínu hafa fjallað um það sem ég talaði um varðandi skattfríðindin sem fyrirtækinu eru tryggð umfram önnur álver og umfram annan iðnað á landinu.

Við höfum mikið talað um útrás og útrásarvíkinga en ég vil leyfa mér að kalla þetta fyrirtæki hér innrásarvíkinga í skattaparadísina Ísland sem verið er að búa til fyrir þetta fyrirtæki. Ég hlýt að vonast til þess að hæstv. ráðherra komi síðar í kvöld aðeins nánar inn á það sem og um þá tillögu mína að þetta mál eigi líka erindi í efnahags- og skattanefnd.

Varðandi atvinnumálin sagði ég að ég teldi ábyrgðarlaust að vekja falsvonir vegna þess hversu mikil óvissa ríkir í rauninni um framtíð þessa verkefnis. Ég viðurkenni að hæstv. iðnaðarráðherra tók sérstaklega fram að það gæti ráðist af öðrum þáttum en þessum samningi framtíð verkefnisins. Hann tíundaði engu að síður fjölda þeirra starfa sem þarna væru í húfi og það eru þær röksemdir sem maður hefur helst heyrt hér á undanförnum vikum varðandi þennan samning, að hann sé lífsins nauðsynlegur núna til þess að bjarga atvinnuástandinu á Suðurnesjum og jafnvel á Suðurlandi. Til þess var ég að vísa, herra forseti, og stend við þau orð mín.