136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við stöndum frammi fyrir því, íslensk þjóð, að bera mikla skuldaklafa sem ég fullyrði og endurtek að eru afleiðingar af 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Var hann einn?) Sjálfstæðisflokkurinn fór með forustu lengst af í þessu stjórnarsamstarfi, annars vegar með Alþýðuflokki og hins vegar með Framsóknarflokki og loks Samfylkingu, og fór með ríkisfjármál og með forsætisráðuneytið lengst af.

Ég skal ekki gera lítið úr því að á þessum tíma, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi, var mikið greitt niður af skuldum ríkissjóðs og staðreyndin er að nú kemur það okkur vissulega til góða í þeim miklu erfiðleikum sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Greitt var niður af þessum skuldum, m.a. með sölu eigna. Bankarnir voru einkavæddir og Síminn og þar með var tekið fé í eitt skipti fyrir öll til að greiða niður þessar skuldir. Árið eftir að búið var að selja þessar eignir fóru þær að mala nýjum eigendum sínum gull og meðan hæstv. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins í 18 ár einhenti sér í að greiða niður skuld ríkissjóðs gætti hún ekki að heildarmyndinni. Það sem gerðist var að heildarskuldir þjóðarbúsins jukust uns þær fóru tífalt fram úr þjóðarframleiðslu vegna þess að menn settu kíkinn fyrir blinda augað og vildu ekki að haft væri eftirlit með viðskiptalífinu hér á landi.