136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:23]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að mikið var selt af eignum á þessum tíma, m.a. bankar og Síminn og ýmsar verksmiðjur sem ég stóð að að selja sem iðnaðarráðherra, og tel að það hafi allt verið skynsamlegt. En í sambandi við sölu bankanna heyrði ég formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segja fyrir tveimur dögum, hæstv. fjármálaráðherra, að að sjálfsögðu mundu bankarnir ekki verða í ríkiseigu til framtíðar. Hann sér það líka þannig fyrir sér að bankarnir verði seldir þannig að þeir verða seldir aftur, mér sýnist ekki nokkur spurning um það. En það getur verið að fyrrverandi ríkisstjórn hafi verið óheppin með kaupendur, ég ætla ekki að fullyrða að þeir hafi verið af besta tagi miðað við það sem komið hefur ljós.

Þegar hv. þingmaður segir að síðan hafi þessar eignir farið að mala gull þegar þær voru komnar í hendurnar á einkaaðilum þá er nokkuð til í því. Ég er þeirrar skoðunar að bankarnir hafi, á meðan þeir voru í rekstri einkaaðila, skapað gríðarlegar tekjur fyrir íslensku þjóðina, mörg vel launuð störf. Þó að svo hrikalega hafi farið að þetta skyldi allt saman fara um koll verður að halda því til haga. Ef ríkið hefði átt þessa banka áfram hefði ríkinu aldrei tekist að gera úr þeim mikil og öflug fyrirtæki. En það er svolítið erfitt að tala um þetta af því að maður er svo eyðilagður yfir því hvernig þetta fór allt saman, það er erfitt að segja eitthvað jákvætt um sölu bankanna miðað við niðurstöðuna sem varð. Svo vil ég mótmæla því að það hafi ekki mátt vera eftirlit, auðvitað var eftirlit.