136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

íslensk málstefna.

198. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. menntmn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég hef fengið það ánægjulega hlutverk að vera framsögumaður menntamálanefndar í þessu máli. Það er vegna þeirrar tilviljunar að formaður nefndarinnar, Einar Már Sigurðarson, og varaformaðurinn, Þuríður Backman, eru bæði veðurteppt fyrir austan í dag. Ég var því fenginn til að hlaupa í skarðið og geri það sæll og glaður.

Í áliti nefndarinnar segir þetta, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Hafstað, Ingibjörgu B. Frímannsdóttur og Sigurð Konráðsson frá Rannsóknarstofu í íslenskum fræðum og íslenskukennslu á menntavísindasviði Háskóla Íslands, Úlfar Bragason frá alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þórarin Eldjárn frá Íslenskri málnefnd, Guðrúnu Kvaran frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslenskri málnefnd, Guðjón Bragason og Svandísi Ingimundardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Önnu Kristínu Sigurðardóttur og Önnu S. Þráinsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Umsagnir bárust nefndinni frá stjórn Rannsóknarstofu í íslenskum fræðum og íslenskukennslu á menntavísindasviði Háskóla Íslands, stjórn Íslenskrar málnefndar, Háskólanum á Akureyri, alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands, Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Bandalagi atvinnuleikhópa, Orðanefnd rafmagnsverkfræðinga, málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ríkisútvarpinu, menntavísindasviði Háskóla Íslands, fagráði í íslensku, og Blaðamannafélagi Íslands, auk minnisblaða frá Önnu Kristínu Sigurðardóttur og Önnu S. Þráinsdóttur.

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu verði samþykktar sem opinber stefna í málefnum íslenskrar tungu. Þá er lagt til að Alþingi lýsi yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Það er álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að setja markmið og móta aðgerðir til þess að hlúa að íslenskri tungu, styrkja hana og efla þannig að íslenska verði nothæf á öllum sviðum íslensks samfélags. Mikilvægt er að styrkja stöðu tungunnar og tryggja að hún glatist ekki á þeim sviðum þar sem erlent mál er ríkjandi.

Nefndin vekur athygli á því að íslensk málstefna hlýtur að vera í stöðugri þróun og mótun og áréttar að hér er um að ræða heildarstefnu en ekki ígildi laga með bindandi áhrif. Fram undan er því vinnuferli, sem eðlilegt er að menntamálaráðherra hafi forgöngu um, við verkáætlanir og samræmingu viðhorfa á einstökum sviðum. Þar þarf m.a. að taka tillit til athugasemda sem nefndinni bárust um atriði sem varða íslenskukunnáttu starfsmanna á öllum stigum skólakerfisins, um íslenskumenntun kennara og um sjálfstæði háskóla við skipulag náms.

Við umfjöllun um málið í nefndinni var mjög rætt um leiðir til að styrkja lagalega stöðu íslenskrar tungu. Nefndin telur að það þurfi að koma skýrt fram í lögum að íslenska sé hið opinbera tungumál lýðveldisins Íslands og að nauðsynlegt sé að stjórnarskrárbinda stöðu og rétt íslenskrar tungu við næstu endurskoðun á stjórnarskránni.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Fyrri málsgrein tillögugreinarinnar orðist svo:

„Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.“

Síðan segir, forseti, í niðurlagi að Einar K. Guðfinnsson og Jón Magnússon hafi verið fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita Einar Már Sigurðarson formaður, Þuríður Backman, Mörður Árnason, Katrín Júlíusdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Björk Guðjónsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Það er ánægjulegt að þetta mál fái einróma afgreiðslu í menntamálanefnd og ég vonast, ásamt nefndinni, til að sú verði einnig raunin hér á þinginu. Að baki liggur mikil vinna hjá Íslenskri málnefnd sem útbjó það plagg sem hér er lýst stuðningi við og þetta er mjög merkilegt þingmál því að þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar móta sér formlega og opinbera málstefnu. Þótt íslensk tunga hafi verið og sé einn helsti grundvöllur þjóðernis okkar og sjálfstæðrar tilveru sem ríkis, höfum við ekki sinnt henni með þessum hætti. Hefur hún þó verið mjög gildur liður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem fór reyndar að hluta til fram með endurreisn tungunnar með hreintungustefnunni, sem er orð sem menn vilja misskilja núna. Hreintungustefnan fólst ekki aðeins í því að leiðrétta málvillur eða því um líkt heldur fólst hún að vissu leyti í því að taka það mál sem þá var til, á 19. öld, og endurgera það með áhrifum frá fornmálinu. En ekki síst með því að skapa nýyrði fyrir þau orð sem viðgengust í erlendu samtímamáli og þjálfa tunguna að nútímanum sem sjálfstæðisbaráttumenn, Fjölnismenn og margir aðrir, tóku að sér að gera á 19. öld og eiga þakkir okkar skildar ævinlega.

Mikil áhersla hefur verið á íslenska tungu allt fram á okkar daga og þó að hún hafi að einhverju leyti látið undan síga hin síðari ár sýnist mér að á þeim nýju tímum sem nú eru runnir upp muni enn verða lögð áhersla á að efla og varðveita íslenska tungu.

Nefndin leggur áherslu á að málstefnan sem samþykkt verður með þessari þingsályktunartillögu er ekki plagg sem á að rita gullnum stöfum á veggi eða höggva í stein heldur er hún verkefni sem á að vera í stöðugri þróun og mótun sem stjórnvöld, þjóð og menningarstofnanir eiga að hafa aðild að og hafa áhrif á á hverjum tíma.

Ef ég má koma að persónulegu áliti, þykir mér skorta að nokkru í málstefnuna umfjöllun um önnur mál á Íslandi en íslensku, um alþjóðamál, svo sem ensku, frönsku og þýsku, um Norðurlandamálin og um tungumál innflytjenda eða nýbúa, hver eigi að vera staða þessara mála og hvernig íslenskan geti samrýmst þeim. Það er staðreynd sem við gleymum að á Íslandi hafa alltaf verið töluð önnur mál en íslenska þótt íslenska sé okkar mál, eins og þar stendur og sungið er.

Menn muna að íslenskan verður til sem blendingsmál norrænna manna frá ýmsum svæðum á fyrstu öld Íslandssögunnar hefur íslenskan lifað hér samhliða keltnesku. Við þekkjum hin miklu áhrif latínu, bæði fyrir siðaskipti sem mál kaþólsku kirkjunnar og eftir þau sem mál menntamanna. Við vitum að norsk áhrif voru hér mikil og þýsk með Hansakaupmönnum. Við vitum að við Englendinga er kennd sérstök öld í Íslandssögunni og hér hafa Englendingar og Íslendingar talað saman á einhverju máli. Síðan eru auðvitað hin sterku áhrif dönsku og svo enskunnar aftur núna. Á síðustu árum hafa svo komið ný mál sem við vissum lítið um, pólska, víetnamska, filippseyska og önnur mál innflytjenda.

Það er auðvitað verkefni framtíðarinnar eins og önnur verkefni sem þarf að móta á grundvelli þessarar stefnu. Eins og segir í nefndarálitinu telur nefndin að menntamálaráðherra hljóti að hafa forgöngu um þetta verkefni sem kynni að koma aftur til kasta þingsins þegar fram líða stundir.

Nefndin gengur þess ekki dulin að í framtíðinni verður nokkur kostnaður af því að móta íslenska málstefnu og framfylgja henni og þeim verkefnum sem henni tengjast. Þau eru ekki rakin hér en með því að samþykkja þessa opinberu málstefnu skuldbindur þingið sig til þess að íhuga gaumgæfilega þær tillögur sem því berast um fé til þessara efna. Það þarf ekki að vera mikið miðað við þær upphæðir sem hér er talað um á hverjum degi, hvort sem það er í tekjulið eða skuldalið, en hjá því kemst ekki sjálfstæð þjóð sem vill varðveita tungu sína og menningu að kosta þar nokkru til.

Að lokum þetta: Virðing Alþingis og orðstír hefur á undanförnum mánuðum beðið nokkurn hnekki. Þetta mætti kannski orða á nútímamáli þannig að ímynd Alþingis sé eiginlega í graut, að ég segi ekki í djúpum skít, og bið forseta um leið fyrirgefningar á því orðbragði, og að „PR“ af hálfu Alþingis sé eiginlega alveg „fatalt“. Ég held að samstaða alþingismanna um íslenska opinbera málstefnu og stuðning við íslenska tungu, það heit sem Alþingi vinnur að því að íslenska sé notuð á öllum sviðum íslensks samfélags, kunni að verða til þess að endurreisa þá virðingu og orðstír í einhverju. Ég tel að þingið geti verið stolt af því, það þing sem nú situr, að samþykkja þingsályktunartillöguna.

Ég vil svo skýra þá breytingartillögu sem nefndin leggur fram með því að hún er lögð fram til þess að færa orðalagið á tillögugreininni til betri vegar en í henni felast engar efnislegar breytingar.