136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

þingrof og kosningar.

[10:32]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Í dag eru 45 dagar til ætlaðra alþingiskosninga. Enn hefur ekkert komið fram um það formlega með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst ganga hér frá þingstörfum, með hvaða hætti staðið verður að þingrofi, frestun þingstarfa og öðru sem tilheyrir því að þingmenn geti hafið kosningaundirbúning. Það er að sjálfsögðu eðlileg krafa að frambjóðendur í alþingiskosningum hafi nægilegt svigrúm til að kynna sig og sína stefnu í aðdraganda kosninga og þess vegna brýnt að fá það fram hver áform ríkisstjórnarinnar í þessu efni eru.

Stendur til að rjúfa þingið nú á næstu dögum eða á að draga það eitthvað? Hvað hefur ríkisstjórnin hugsað sér?