136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

staða heimilanna.

[10:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Seðlabankinn kynnti í gær mjög alvarlegar niðurstöður um stöðu heimilanna í landinu. Í þeim bráðabirgðaupplýsingum kemur fram að rúmlega 30 þúsund fjölskyldur eru eignalausar eða hartnær. Það sem gerir málið enn alvarlegra er að í þessum bráðabirgðaniðurstöðum er ekki búið að reikna inn öll þau lán sem hvíla á íslenskum almenningi. Það má nefna öll námslán, öll bílalán, öll yfirdráttarlán og öll lífeyrissjóðslán. Talað hefur verið um að það geti verið allt að því 400–600 milljarðar sem eigi eftir að bæta við inn í þessa útreikninga hjá Seðlabankanum og enginn veit enn þá hvernig þær skuldir skiptast.

Það er líka sláandi að heyra að um tvö þúsund heimili skulda yfir 50 milljónir í fasteignum sínum, og það er verið að birta þarna upplýsingar án þess að greiðslugeta þessara einstaklinga komi fram. Eftir að hafa lesið og hlustað á fréttir í gær kom það virkilega á óvart að hagfræðingar, bæði Seðlabankans og Háskólans í Reykjavík, teldu að staðan væri ekki svo slæm, þetta væri eiginlega miklu betra en þeir hefðu átt von á. Ég verð að spyrja: Hverju áttu þessir sérfræðingar eiginlega von á? Áttu þeir von á því að öll heimili á Íslandi væru gjaldþrota?

Það vekur náttúrlega líka áhyggjur mínar að á blaðamannafundinum, þar sem hæstv. forsætisráðherra kynnti fyrir fram niðurstöður Seðlabankans, var sérstaklega talað um að það yrði væntanlegt frumvarp ríkisstjórnarinnar um greiðsluaðlögun sem gæti tekið á vanda þessara fjölskyldna. Hvernig í ósköpunum sér hæstv. forsætisráðherra það fyrir sér að hægt verði að skipa umsýslumenn fyrir 30 þúsund heimili í landinu? Hvernig er það hægt? Er það kannski nýja atvinnustefnan hjá ríkisstjórninni að skapa 5–10 þúsund störf fyrir lögfræðinga til þess að aðstoða gjaldþrota fjölskyldur hér í landinu?