136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

útboð í vegagerð.

[10:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur verið að segja frá því, sem er ánægjulegt, að þrátt fyrir allt verði þetta ár eitt mesta framkvæmdaár í vegamálum í sögu þjóðarinnar. Það skýtur því óneitanlega skökku við þegar maður les á heimasíðu Vegagerðarinnar að ekki er búið að bjóða út nema tvö verk sem ætlunin er að vinna á þessu ári.

Ég fór yfir þetta í gær og þá sá ég að búið var að bjóða út tvö verk og raunar búið að semja um tvö verk líka. Það er auðvitað þannig, eins og allir sjá, að árið líður. Það er komið fram í miðjan mars og í ljósi þess að þetta á að vera mikið framkvæmdaár hefði maður talið að búið væri að bjóða út miklu fleiri verk, og ekki síður í ljósi þess að þegar við skoðum þau tilboð sem þó hafa verið auglýst og þegar hafa verið opnuð, liggja lægstu tilboðin, og þau eru nokkur, í kringum 60% af kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Það er því alveg ljóst að menn fá mjög mikið fyrir peninginn í þeim útboðum sem þegar hafa átt sér stað.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ekki er búið að bjóða út fleiri verk. Ég veit að hjá Vegagerðinni liggja fyrir allmörg verk sem eru tæknilega klár í útboð en það þarf að gefa grænt ljós á að þessi útboð fari fram. Ég veit að verktakar um allt land bíða eftir því að sjá fleiri útboð, menn þyrstir í störfin. Það liggur fyrir að mjög mörg verktakafyrirtæki eru að verða verkefnalaus eða verkefnalítil. Hættan er líka sú að við þessar aðstæður bjóði menn niður úr öllu valdi.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að farið verði í það að bjóða verk út af miklu meiri krafti þannig að við getum komið þessum framkvæmdum af stað, ekki síst í ljósi þess að atvinnuleysi fer vaxandi. Þetta er eitt þeirra tækja sem ríkisvaldið hefur til þess að auka atvinnusköpun, þ.e. að hraða útboðum á slíkum verkefnum og (Forseti hringir.) koma af stað vinnu þannig að fleira fólk sem nú gengur um atvinnulaust geti fengið vinnu við sitt hæfi.