136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

skerðing almannatrygginga vegna fjármagnstekna.

[10:58]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin en þessar reglur eru mjög mismunandi. Varðandi lífeyrissjóðstekjurnar eru eingöngu 25% þeirra sem koma til skerðingar, ef ég man rétt, meðan það eru 100% varðandi fjármagnstekjur.

En það er alltaf mjög óheppilegt þegar krefja þarf fólk um ofgreiddar bætur og ég skil mjög „svekkelsi“ aldraðra og áhyggjur þeirra af því. En það sem ég spurði sérstaklega um var hvort hæstv. ráðherra telji að gengið hafi verið of langt með því að telja verðbætur til fjármagnstekna. Það er það sem hefur sérstaklega verið gagnrýnt í þessum efnum.

Ég geri ekki athugasemdir við að aðrar tekjur hafi áhrif á lífeyri enda er lífeyrir almannatrygginga hugsaður sem ákveðinn grunnur til að fólk geti framfleytt sér með sómasamlegum hætti og er engin ástæða til annars en að aðrar tekjur hafi einhver áhrif þar á.

En það er spurningin hvort gengið hafi verið of langt með því að taka verðbæturnar inn í fjármagnstekjur. Ég ítreka því spurningu mína í þá veru.