136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

álver í Helguvík.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það mun koma í ljós við afgreiðslu málsins hvort þingmenn Vinstri grænna greiða atkvæði gegn eða sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Ég held að það sé ekkert einsdæmi í þingsögunni að ráðherra í ríkisstjórn, svo dæmi sé tekið, leggist gegn frumvarpi og er dæmi um það frá 1970 þegar einn ráðherra lagðist gegn stjórnarfrumvarpi, mig minnir að það hafi verið um verðlags- og samkeppnismál, með þeim afleiðingum að það var fellt. Ég hygg ekki að það mál sem hér um ræðir verði fellt á þingi, ég veit ekki betur en að það hafi góðan þingmeirihluta.