136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem við fjöllum um hér, Icesave-ábyrgðirnar, er eitt mesta óréttlætismál seinni tíma. Þegar bankarnir hrundu kom í ljós að mjög hár reikningur mundi líklega lenda á íslensku þjóðinni vegna Icesave-ábyrgðanna. Þá voru nefndar tölur eins og 628 milljarðar en síðan hafa komið fram opinberlega tölur um að þetta gæti verið talsvert lægri upphæð. Skilanefnd Landsbankans nefnir töluna 72 milljarða. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti upplýst okkur um hver sannleikurinn sé í þessu máli ef hann er einhvers staðar sýnilegur í augnablikinu. Hvað er líklegt að þessar ábyrgðir séu háar?

Það er líka sárgrætilegt þegar maður skoðar málið til baka að hugsanlega hefðum við getað losnað við þessar ábyrgðir. Miðað við þá umræðu sem var í samfélaginu þegar þetta allt átti sér stað var talað um að fyrir 200 milljóna punda fyrirgreiðslu hefðu Bretarnir hugsanlega tekið ábyrgðirnar í sína lögsögu. Sú er hér stendur spurði þáverandi forsætisráðherra sérstaklega að þessu, hvort þetta væri rétt og fékk svar um að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki vitað af þessu áður en Landsbankinn var yfirtekinn. Síðan hefur Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, upplýst að hann hefði upplýst fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra um þetta áður en Landsbankinn var tekinn þannig að svörin stangast á. Það er sárgrætilegt að horfa upp á þetta ef rétt er. Ég vil leyfa mér að trúa því að hæstv. forsætisráðherra hafi rétt fyrir sér í þessu máli en það þurfa að koma skýrari svör.

Fyrir nokkru spurði ég hæstv. utanríkisráðherra út í það hvort okkur bæri lagaleg skylda til að greiða. Í því svari sem kom segir að það séu þungvæg lögfræðileg rök sem hnígi að því að við verðum að greiða þessar upphæðir. Það kemur líka fram að ríkin þrjú sem hér eiga hlut að máli og öll ESB-ríkin og Noregur hafi þvertekið fyrir málarekstur á lögfræðilegum grunni um þetta mál og því sé sú leið ekki fær.

Ég spurði líka hæstv. utanríkisráðherra hvort gert hefði verið hagsmunamat á stöðu Íslands ef við borgum og ef við borgum ekki. Svörin sem ég fékk voru mjög veik, virðulegur forseti. Ég vil því beina sömu fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra: Hefur farið fram einhvers konar hagsmunamat á þessum leiðum, þ.e. ef við borgum og ef við borgum ekki? Ég geri mér grein fyrir því að ef við borgum ekki verður uppnám í EES-samningnum en það er spurning hvernig hagsmunamat okkar sé ef við borgum, virðulegur forseti.

Á sínum tíma var það niðurstaða íslenskra stjórnvalda, þ.e. Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, það var mat þeirrar ríkisstjórnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið væri best borgið með því að við greiddum þessar ábyrgðir. Í svari hæstv. utanríkisráðherra fyrir stuttu kemur það sama fram og ég vil lesa upp úr því svari af því að ég inni sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það sé ekki alveg rétt sem þar kemur fram. Þar stendur eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er því mat núverandi ríkisstjórnar, og þeirrar fráfarandi einnig, að lausn deilunnar með aðstoð alþjóðasamfélagsins og þeirra ríkja sem næst okkur standa, fyrst og fremst Norðurlandanna, sé ein af forsendum endurreisnar íslensks efnahagslífs.“

Virðulegur forseti. Er það ekki þannig, og það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra svari því, er það ekki rétt skilið að Vinstri grænir séu þá sammála þessu mati, að það sé eðlilegt, skást í stöðunni ætti ég kannski frekar að segja, að borga þessar ábyrgðir? Ég spyr einnig hæstv. fjármálaráðherra: Hvar standa samningarnir yfirleitt? Nú er komin nefnd í þetta mál, ný nefnd sem Svavar Gestsson veitir forstöðu og væntanlega er hún að vinna gott starf, en hvernig standa samningarnir? Væri eðlilegt að samningaviðræður tækju jafnvel mörg ár? Við eigum kannski erfitt með að sjá núna hver greiðslugeta okkar er. Megum við búast við því að þetta gæti tekið mörg ár, virðulegur forseti? Ég tel mjög mikilvægt að bæði þing og þjóð átti sig á stöðunni af því að að lokum, þegar samningar eru á lokastigi, þarf Alþingi að samþykkja (Forseti hringir.) eða hafna ábyrgð á því að íslenska ríkið greiði þennan reikning. Það er mjög mikilvægt að við vitum hvenær von sé (Forseti hringir.) á niðurstöðu og í hvaða anda hún verður.