136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:21]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg umræða um grundvallaratriði. Mótmæli vegna bankahrunsins á Íslandi hófust ekki í Reykjavík, heldur við sendiráð Íslands í öðrum löndum. Hundruð þúsunda almennra borgara í löndum eins og Hollandi, Þýskalandi, Bretlandi, Lúxemborg og á Norðurlöndunum óttuðust um eða töpuðu ævisparnaði. Þetta var ekki verk íslensks almennings en í heimsþorpinu sem við lifum í núna litu þessi hundruð þúsunda venjulegs fólks svo á að Ísland væri ábyrgt. Orðspor Íslands var undir, landið sem aldrei hefur farið með ófriði á annarra hendur var í fyrsta skipti í sögu sinni í deilu við alla nágranna sína. Við þessar aðstæður kaus bankastjóri Seðlabankans og heimastjórnararmur Sjálfstæðisflokksins að senda þau skilaboð til umheimsins að Íslandi væri skítsama. Við borgum ekkert, sagði hann, og heimspressan frá New York til Berlínar, um Lundúnir til Tókíó, sló því upp sem heimsfrétt. Á grundvelli þessarar afstöðu einangraðist Ísland frá öllum, vinum á Norðurlöndunum jafnt sem annars staðar. Öll ríki sem voru reiðubúin að lána okkur fé vildu gera það á grundvelli áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema vinir okkar Færeyingar. Forsenda jákvæðra samskipta var að Icesave-deilan kæmist í diplómatískan farveg.

Nú hefur nýr fjármálaráðherra tekið við forustu samninganna um Icesave. Í stjórnarandstöðu hélt hann reyndar aðrar ræður en þá sem hann hélt hér áðan, en ný ríkisstjórn hefur í engu breytt þeim ákvörðunum sem teknar voru í fyrri ríkisstjórn undir forustu fyrrverandi forsætisráðherra Geirs Haarde.

Það sýnir að leiðin að málinu sem var ákveðin í haust er sú rétta. Það vantar yfirþjóðlegan dómstól en við samningaborðið hefur Ísland náð miklum árangri og eins og fyrrverandi utanríkisráðherra sagði vinnur tíminn með okkur í þessu máli, þetta er pólitískt úrlausnarefni en ekki mál sem (Forseti hringir.) þrífst í lagatæknilegu tómarúmi.