136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:26]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Icesave-málið er ekki nema hluti af stórri heild. Stóra heildin er sú að íslensku viðskiptabankarnir komu sér í þá stöðu að þeir réðu ekki við skuldbindingar sínar og líklega munu þúsundir milljarða króna tapast og þeir sem tapa þessu fé eru erlendir kröfuhafar, bankar og fyrirtæki erlendis. Það er nefnilega þannig að stóri skellurinn í þessu máli lendir á viðskiptavinum bankanna en ekki á íslensku þjóðinni.

Við eigum mikið undir því að samkomulag náist um uppgjör á þrotabúum gömlu bankanna við þessa erlendu kröfuhafa og að menn gæti þess í skilum milli gömlu og nýju bankanna að sátt verði um þær færslur þannig að við lendum ekki í deilum við erlendar þjóðir. Við höfum ekki bolmagn til að standa í deilum við erlendar þjóðir, við byggjum okkar lífskjör á viðskiptum erlendis, við höfum hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu sem tengist viðskiptum við útlönd en nokkur önnur þjóð og ef ekki gengur að halda þeim úti með sómasamlegum hætti munu lífskjör hér á landi falla mjög hratt.

Það er umdeilanlegt hvort okkur beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-reikningana en ég er kominn á þá skoðun eftir athugun málsins að það sé óskynsamlegt að láta reyna á það, skynsamlegra fyrir okkur er að ná samningum um uppgjör á þeim deilum. Við getum aldrei unnið það stríð ef við ætlum í það vegna þess að þolendurnir í því stríði eru einstaklingar í mörgum Evrópusambandsríkjum, fyrirtæki, sveitarfélög en fyrst og fremst fólk sem er að tapa miklum peningum í löndum sem við viljum eiga mikil viðskipti við. Ég tel skynsamlegast að við náum samkomulagi um uppgjör á þeim (Forseti hringir.) skuldum.