136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:28]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bera umræðu um Icesave-reikninga á borð hér rétt eina ferðina. Þó er það svo að þjóðin hefur ekki fengið þau svör sem hana vantar. Kannski er kjánalegt að reyna að kalla þessi svör fram hér í þinginu því að hæstv. ráðherrar sem bæði eru löggjafar- og framkvæmdarvald geta staðið hér mánuðum saman án þess að gefa nokkur svör. Og virðulegir embættismenn eru ítrekað kallaðir fyrir nefndir þingsins til að leita upplýsinga við ýmsum dylgjum sem þeir hafa látið falla í fjölmiðlum — en allt kemur fyrir ekki.

Það eina sem þjóðin veit er að hún verður á komandi vikum eða mánuðum skuldsett þannig að þau lífsgæði sem við höfum grobbað okkur af í nokkurn tíma og fært okkur samfélag velferðar, nægrar atvinnu, kröftugs heilbrigðiskerfis og ágæts menntakerfis er liðin tíð. Þess utan höfum við haft efni á ýmsum munaði eins og því að velta því fyrir okkur hvort við eigum að nýta landsins gæði, en sá tími er líka liðinn.

Það veit hvert mannsbarn að aldrei var látið reyna á lagalega hlið þessa máls. Það veit hvert mannsbarn að mikil óvissa ríkir um regluverkið sem smíðað hafði verið utan um það sem sumir hafa kallað skuldbindingar ríkisins, en lagalega séð er algjörlega óvíst hvort eru nokkrar skuldbindingar. Fyrrverandi ríkisstjórn fékk ráðgjöf um að það þjónaði ekki hagsmunum íslenska ríkisins að leita réttar síns. Íslenska þjóðin vill vita hvers vegna. Hvaða hagsmunir eru það sem ekki er hægt að uppfylla og hvers vegna er ekki hægt að uppfylla þá? Er það vegna þess að íslenskir ráðamenn létu hræða sig með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn í húsasund og leystu svo bara niður um sig? Af hverju, hæstv. fjármálaráðherra? Af hverju?

Eins og ég sagði í upphafi er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bera umræðu um skuldbindingar íslenskra banka á erlendri grundu hér á borð eina ferðina enn og líklega er það tímasóun eftir allt sem á undan er gengið og miðað við farveginn sem málið hefur verið sett í, en það er þó alveg á hreinu að venjulegt fólk sem fylgir lögum og reglum í þessu landi vill skýringar á því hvernig íslensku bankarnir gátu hleypt því í þá stöðu að þurfa að borga þennan brúsa á næstu áratugum. Það er ekki í samræmi við það réttarríki sem við þó búum við sem reyndar hefur (Forseti hringir.) verulega látið á sjá undanfarna mánuði.