136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:30]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að vekja máls á þessu. Þetta er afar mikilsvert mál og skiptir sköpum hvernig til tekst. Ég hef áður flutt hér ræður um þetta og ég hef ekki breytt neinni skoðun um það. Ég minni á ummæli hv. þm. Árna Mathiesens 13. nóvember um að þetta væri gjörsamlega óaðgengilegt. Undir það tók hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Sú afstaða breyttist og skýringar á þeirri breytingu má finna í ræðu fyrrverandi utanríkisráðherra 17. nóvember 2008 og tengsl við Evrópska efnahagssvæðið og fleira í þeim dúr.

Ég minni líka á að Ríkisendurskoðun taldi á sínum tíma að við bærum enga ábyrgð á þessum skuldbindingum og að ekki ætti að færa þetta inn í ríkisreikning, það ætti að standa þar fyrir utan. Ég leyfi mér líka að minna á ummæli lögfræðinganna Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals og ræðu Bjargar Thorarensen 1. desember 2008 um ógildanlega nauðungarsamninga. Ég segi það að hugsanleg eftiráábyrgð ríkisins er í raun brot á samkeppnisreglum ESB. Ef við hefðum tekið þetta upp áður hefðum við verið talin brotleg. Öll þessi rök verða frammi í samningaviðræðunum og verða að vera það. Við tókum við málinu í þeim farvegi sem það er og við verðum að leysa það. Tíminn mun vinna með okkur í þeim efnum.

Ég vil segja að lokum að mér finnst afar mikilvægt að utanríkismálanefnd fylgist nákvæmlega með þessu máli og fái frá ríkisstjórninni af sjálfsdáðum og jafnharðan allar upplýsingar sem þar skipta máli. Aðalatriðið í lausn þessa máls er þó kannski það að leita friðarsamninga við Breta út frá greiðslugetu þjóðarinnar, leggja hana á borðið og leita eftir friðarsamningum. Við þurfum líka að ná í þessu máli þverpólitískri sátt vegna þess að það skiptir sköpum um framtíð þjóðarinnar.