136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:45]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú er hér stendur bað um svar á sínum tíma. Þar var spurt hvort fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Geir H. Haarde, hefði vitað af þessu svokallaða tilboði sem sú er hér stendur veit ekkert hvort átti sér stað eða ekki — en það var í fjölmiðlaumræðu á sínum tíma — hvort hv. þingmaður hefði vitað af þessu tilboði áður en Landsbankinn var yfirtekinn. Svar hv. þingmanns var nei og það var líka spurt hvort einhverjir ráðgjafar eða embættismenn hv. þingmanns, þáverandi forsætisráðherra, hefðu vitað af þessu. Svarið var: Mér er ekki kunnugt um það.

Síðan kemur um síðustu helgi frétt þar sem Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segist hafa sagt fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra frá þessu svokallaða tilboði á mánudeginum sem ég held að sé 6. október. (Forseti hringir.) Það er þetta sem ég var að segja áðan og ég sagði líka að ég vonaði að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hefði sagt þinginu (Forseti hringir.) rétt frá og nú hefur hann hefur staðfest það hér í þingsal.