136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[11:57]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur mælt fyrir er gott mál þótt kannski séu ekki neinar stórar upphæðir á ferðinni í þeim efnum en þarna er verið að nýta heimildir og fjármagn á milli liða, bæði til atvinnusköpunar og þess að auka orkusparnað og sparnað í húshitun.

Ég vildi þó bara spyrja hæstv. ráðherra — ég kem reyndar betur að því í ræðu minni á eftir — hvort hann hyggist grípa til eða standa við þau fyrirheit sem gefin voru við setningu þessara nýju raforkulaga, markaðsvæðingu raforkukerfisins, um að ríkið mundi tryggja jöfnuð í verði á rafmagni og orku til íbúa landsins óháð búsetu og það á ekki hvað síst við til að kynda hús. Ég hef tölulegar upplýsingar um hvernig þetta hefur allt saman farið á annan veg, raforkuverð til notenda hefur hækkað, sérstaklega í dreifbýli, langt umfram það sem heitið var. Þær hækkanir sem urðu til viðbótar nú í upphafi árs og nú síðast frá Orkubúi Vestfjarða sýna berlega hversu hryllilegt slys markaðsvæðing raforkukerfisins og innleiðing raforkulaganna var á sínum tíma og fullkomin blekking gagnvart íbúum landsins í þeim efnum að þetta ætti að leiða til lækkunar á rafmagni og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hyggist grípa til aðgerða til að standa við eitthvað af þeim fyrirheitum sem gefin (Forseti hringir.) voru á þeim tíma.