136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:24]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sú staðreynd liggur alveg köld fyrir að markaðsvæðing raforkukerfisins og breytingar á raforkulögunum sem voru gerðar í tíð hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, hafa ekki leitt til þeirra bóta og lækkað verð eins og lofað var.

Hitt er alveg rétt að nú er komin ný ríkisstjórn sem tók reyndar ekki við fyrr en fyrir rúmum mánuði þannig að það sem við búum nú við í fyrirkomulagi raforkumála er frá fyrri ríkisstjórnum, markaðsvæðingar- og einkavæðingarríkisstjórnunum sem voru hérna fyrr á þessari öld.

Ég get alveg sagt það hér að mínar hugsjónir varðandi raforkumálin eru óbreyttar og þetta frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur nú er lítið en gott skref innan þess ramma og þess svigrúms sem við höfum þessa dagana.

Ég get alveg lofað hv. þingmanni því að fái Vinstri grænir áfram góða aðild að næstu ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum verður eitt af baráttumálunum jöfnuður á raforkuverði til landsmanna. Einnig munum við kanna hvort ekki sé hægt að falla frá þessari fáránlegu markaðsvæðingarhugmynd í raforkukerfinu sem hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, innleiddi og hefur sýnst vera þjóðinni ekki til gagns, og reyndar í mörgum tilfellum til ógagns.