136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:26]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu hér. Ég vil bara taka undir þetta, ég er ánægður með þetta frumvarp og ætla að styðja það. Vegna umræðu um raforku og raforkuverð eigum við verulega mikla möguleika í raforku. Við eigum bæði fallvötn og orku í iðrum jarðar sem er hægt að nýta til raforkuframleiðslu. Svo eigum við ýmsa nýja möguleika sem sjálfsagt styttist í að verði arðbærir með hækkandi orkuverði í heiminum, eins og vindorkuna. Vindmyllur eru þekktar úti um allan heim.

Það styttist í að við getum nýtt sjávarföllin til raforkuframleiðslu í auknum mæli til framtíðar litið þannig að það er um að gera fyrir okkur að vera þátttakendur í þessu, fylgjast með og rannsaka hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Til dæmis hafa verið vindmælingar á Suðurnesjum í 60 ár í tengslum við Keflavíkurflugvöll. Það er mikill þáttur í því þegar menn ætla að virkja vindorku að hafa upplýsingar um veðurfar og annað í þeim dúr. Það væri hægt að setja upp nokkur hundruð vindmyllur á Suðurnesjum ef út í það er farið. Það er sjálfsagt fyrir okkur að fylgjast með og læra á þetta, þróa þetta og rannsaka betur því að án efa kemur að því að við nýtum okkur þetta eins og hvað annað. Orkuþörfin er alltaf að aukast og við þurfum að fylgjast með og nýta okkur alla þá möguleika sem við höfum.

Varðandi ummæli hv. þm. Jóns Bjarnasonar talar hann um að það sé hægt að gera þetta og hitt eftir kosningar. Það er með þennan ágæta fjórflokk sem ræður hér að það er alltaf hægt að gera þetta seinna eða einhvern tímann í framtíðinni en ekki núna. Þegar menn hafa völdin eiga þeir að nota stöðu sína til að gera það sem þarf að gera. Það er ekki nóg að tala um að raforkuverð sé of hátt. Af hverju lækka menn það einfaldlega ekki, t.d. til garðyrkjubænda og heimilanna í landinu, þegar þeir hafa stöðu til þess í stað þess að tala um að gera það eftir kosningar og reyna að fá atkvæði út á það?

Það er eitt af því sem vekur athygli manns, það er dálítið sérstakt loforð hjá núverandi ríkisstjórn að lofa einhverju eftir kosningar. Af hverju gera þeir það ekki strax?