136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:29]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þeim fulltrúum þingflokkanna sem hér hafa tekið til máls og allir lýst stuðningi við þetta mál. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson var jákvæður að vanda og lýsti yfir eindregnum stuðningi við málið. Hann velti sömuleiðis fyrir sér hvort ekki væri hægt að gera reka að því að afla orku með öðrum hætti en þeim sem hugsanlega verður afleiðingin af því frumvarpi sem við munum væntanlega samþykkja. Hv. þingmaður nefndi t.d. vindorku og orkuna sem býr í sjávarföllum.

Rétt er þá að geta þess að á vegum iðnaðarráðuneytisins hafa einmitt verið styrktir aðilar sem hafa ráðist í það að kaupa sér vindmyllur, ekki bara til að knýja heimabæinn, heldur líka til að selja beint inn á kerfið. Það er tilraunaverkefni sem er í gangi með smurolíu frá iðnaðarráðuneytinu — sem er náttúrlega olíumálaráðuneyti eins og oft hefur komið fram í ræðum hv. þingmanns — og þeir styrkir, að vísu litlir, hafa verið notaðir sem eins konar olía til að smyrja gangvirki þeirra hugmynda og þess framtaks sem hefur komið fram hjá þeim einstaklingum sem eftir því hafa sótt til þess að setja upp vindmyllur.

Sömuleiðis er í gangi tilraunaverkefni hjá iðnaðarráðuneytinu í samvinnu við Rarik sem miðar að því að beisla orkuna í sjávarföllum þar sem þau eru hvað straumþyngst, þ.e. í Hvammsfirði og á Breiðafirði, og það lofar góðu. Ég hef áður greint þinginu frá því.

Það frumvarp sem við erum hér að reifa hefur hins vegar tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi koma auknir peningar úr sjóðum sem þegar eru til til þess að styrkja frumkvæði sem beinist að því að nýta óhefðbundna umhverfisvæna orkugjafa, eins og t.d. vindmyllur og viðarkyndingu. Í annan stað er því sömuleiðis velt upp að nýta ákveðna samvinnu á millum stofnana iðnaðarráðuneytisins, Íbúðalánasjóðs, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til að koma af stað auknum störfum sem tengjast því sem ég kalla orkuviðhaldið, þ.e. endurgerð og endurbótum á húsnæði til að minna geisli út og sleppi út af varma. Það skapar störf. Gert er ráð fyrir að þetta frumvarp skapi 50–100 störf, sumir segja fleiri, og flest hjá iðnaðarmönnum. Það skiptir máli.

Ég gleymdi svo einu, frú forseti, þetta frumvarp er auðvitað ekki síður lyftistöng fyrir þá nýju þróun sem er að ryðja sér til rúms hér á landi og felst í því að nýta varmadælur til að breyta varma úr t.d. lofti, sjó og vatni í beinlínis rafmagn. Það skiptir máli, láta það koma í staðinn fyrir rafmagn. Hér er um framfaramál að ræða og ég er þakklátur fyrir þann góða stuðning sem hefur komið fram hjá öllum þeim sem til máls tóku.