136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[12:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir máli sem margir í kvikmyndagreininni hafa beðið lengi eftir. Þetta frumvarp, sem er á þskj. 691 og er 407. mál þingsins, felur í sér breytingar á lögum sem nú gilda um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þau lög voru sett 1999, nr. 43.

Sú breyting sem ég legg til með þessu frumvarpi felur það í sér að endurgreiðsluhlutfall laganna hækkar úr 14% í 20%. Markmiðið með þeirri breytingu er að sjálfsögðu að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum, ekki síst öðrum Evrópuríkjum, t.d. á Írlandi, í þeirri von að skapa atvinnu fyrir kvikmyndaframleiðendur hér á landi og ýmsa þjónustustarfsemi sem tengist gerð kvikmynda á Íslandi.

Þessum lögum hefur áður verið breytt. Það var gert árið 2006 með lögum nr. 159 sem tóku gildi á síðasta degi þess árs. Þá var endurgreiðsluhlutfall laganna hækkað úr 12% í 14%. Menn bundu við þá hækkun töluverðar vonir um að hún yrði til þess að laða að fleiri erlend kvikmyndaverkefni. Frá því er skemmst að segja að sú hækkun, sem einungis var 2%, náði ekki tilætluðum árangri. Erlendum verkefnum hér á landi í kvikmyndagreininni hefur ekki fjölgað frá því að sú breyting tók gildi í árslok 2006. Þau erlendu verkefni sem fengið hafa endurgreiðslu í krafti lagabreytingarinnar eru fá og þau eru ekki stór í sniðum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að samkeppnisstaðan hefur versnað. Það hefur birst í því að þau ríki sem við erum að keppa við um að fá verkefni hafa farið svipaða leið og við, þ.e. þau hafa fyrst tekið upp þetta kerfi sem við vorum eitt af fyrstu ríkjunum til að innleiða og síðan hafa þau rennt í þá slóð og hækkað hlutfallið töluvert umfram það sem er enn í gildi á Íslandi, þ.e. 14%.

Það er álit ákaflega margra sem skoðað hafa þessi mál að það sé mjög eftirsóknarvert að skjóta styrkari stoðum undir kvikmyndaiðnaðinn og efla þannig möguleika okkar á að skapa tekjur fyrir þjóðarbúið. Besta leiðin til þess er sú sem hér er farin. Það er bæði mál þeirra sem greininni tengjast og sömuleiðis fjárfestingarstofu sem er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og Útflutningsráðs. Þar hafa menn skoðað þetta og komist að þeirri niðurstöðu að mjög brýnt sé að fara þessa leið.

Við sem höfum fylgst með kvikmyndaiðnaði á Íslandi, eins og kvikmyndaráðherra ber, vitum að skapast hefur ákaflega mikil þekking á kvikmyndagerð og sömuleiðis á allri þjónustu sem henni tengist hér á Íslandi. Í þekkingu felast alltaf verðmæti og í mikilli þekkingu mikil verðmæti og það er þessi þekking og reynsla íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem ásamt íslenskri náttúru, sem er einstök og allt öðruvísi en náttúran í flestum öðrum löndum, eiga að geta sameiginlega skapað sóknarfæri á sviði kvikmyndagerðar.

Fleira þarf að koma til en sú þekking sem ég nefndi hér áðan eða hin einstaka náttúra Íslendinga svo að erlendir kvikmyndaframleiðendur ákveði að leggja leið sína til Íslands. Samanburðurinn sem gerður hefur verið við önnur lönd bendir til þess að samkeppnisstaðan hafi versnað að því leyti að endurgreiðsluhlutfallið hér sé of lágt til þess að það dugi til að fyrirtækin ákveði að velja Ísland. Það er með hliðsjón af því sem ég hef lagt það til í ríkisstjórn og ríkisstjórn samþykkt með þessu frumvarpi að hlutfallið verði hækkað mjög verulega eða í 20%.

Ég tel rétt að minna á það, frú forseti, að núgildandi lög um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar eru tímabundin og gilda einungis til ársloka 2011. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér innan úr greininni er líklegt að þegar á árinu 2011 verði komin nokkur reynsla á hvort hækkunin á hlutfallinu í 20% skili þeim árangri sem til er ætlast. Þetta felur að sjálfsögðu í sér ríkisstyrk samkvæmt þeim reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Breytingar á lögunum þarf þess vegna að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA og þær verða að hljóta samþykki þeirrar stofnunar. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það samþykki verði auðveldlega veitt. Ef ég skoða kerfið sem búið er að koma á í Evrópu þá blasir það við að þar hafa lönd farið svipaða leið og Íslendingar munu fara verði þetta frumvarp mitt samþykkt.

Í Bretlandi er t.d. búið að koma upp endurgreiðslukerfi sem býður kvikmyndagerðarmönnum, eftir eðli mynda og starfsins sem þeir inna af höndum, endurgreiðslu frá 16% og upp í 25%. Nágrannaland Breta, og vinir okkar og frændur, Írland hefur frá 1. mars sl. hækkað sína endurgreiðslu, sem var komin í 20%, upp í 28%. Það ætti því ekki að verða erfitt fyrir okkur að fá samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA við 20% styrk. Ég get þess líka að Ungverjaland hefur um fimm ára skeið boðið upp á 20% endurgreiðslu og ég veit að frú forseta þætti það fengur að heyra að á þeim tíma hefur velta kvikmyndaiðnaðarins í Ungverjalandi tífaldast.

Frú forseti. Ég er ekki að halda því fram að samþykkt þessa frumvarps feli það í sér að velta íslensks kvikmyndaiðnaðar muni tífaldast. En sannarlega gefur reynsla Ungverja okkur tilefni til þess að hafa sterkar væntingar til þess að breytingin sem hér er lögð til muni leiða til þess að velta greinarinnar aukist töluvert. Ég er sannfærður um það að t.d. hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem hefur stutt þetta frumvarp í sínum þingflokki, yrði mér sammála um það. (Gripið fram í.)

Ég hef rakið hér ýmsa kosti Íslands sem kvikmyndalands og veit að hæstv. dómsmálaráðherra er mér örugglega sammála um það sem gamall og nýr kvikmyndaunnandi að samt sem áður er Ísland af ýmsum ástæðum óhagkvæmt land. Landfræðileg lega Íslands gerir það að verkum að fyrir marga er Ísland afskekkt eyja í miðju Atlantshafinu og það er dýrt að flytja aðföng hingað og vegna smæðar markaðarins og þess hversu dýrt er að framleiða kvikmyndir þarf íslensk kvikmyndagerð á stórum erlendum verkefnum að halda til þess að styrkja þau framleiðslusvið sem tengjast kvikmyndun hér á landi. Aukin erlend verkefni bæta við þekkingu íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Þau stuðla að nýliðun á hinum ýmsu sviðum og skapa vitaskuld fleiri verkefni sem margvísleg þjónustufyrirtæki sem tengjast kvikmyndaiðnaðinum vinna og sinna. Segja má að frumvarp af þessu tagi yrði til þess að styrkja öll þau svið og hina almennu þjónustu við kvikmyndageirann á Íslandi.

Kvikmyndaverkefni eru ekki bara góð og drjúg til að skapa atvinnu innan sjálfs kvikmyndageirans. Þau eru líka ákaflega vel fallin til þess að styrkja innviði ýmissa annarra þjónustugreina eins og verslunar og ferðaþjónustu. Upphæðirnar sem skila sér til tengdra en þó eðlisóskyldra geira atvinnulífsins af þessum sökum hlaupa oft, í tengslum við einstök verkefni, á tugum og hundruðum milljóna og mikilvægi þessa eru ástæður þess að lönd hafa tekið upp háa endurgreiðsluprósentu.

Sums staðar hafa lönd eða ákveðin svæði beinlínis gert út á kvikmyndaiðnaðinn til þess að skapa ný störf, skapa atvinnu og laða að sér nýjar greinar þegar hefðbundnar greinar hafa látið undan síga. Frægt dæmi er t.d. í Detroit í Bandaríkjunum þar sem bílaiðnaðurinn fór með himinskautum áratugum saman. Þegar hann dró saman seglin gripu yfirvöld þar til þess ráðs að bjóða 40% endurgreiðslu til þess að skapa fleiri störf innan kvikmyndaiðnaðarins og auðvitað hafði það gríðarlega sterk áhrif.

Við megum heldur ekki gleyma hinu að erlendar kvikmyndir sem teknar eru á Íslandi hafa gríðarlegt kynningargildi fyrir Ísland. Það er vel þekkt að þegar hér hafa komið stór kvikmyndaverkefni þar sem auðsætt er að íslensk náttúra og jafnvel íslensk menning leika stór hlutverk hefur ferðamennska til Íslands og áhugi á Íslandi snöggtum aukist. Stóru kvikmyndirnar sem hér hafa verið gerðar af erlendum fyrirtækjum ná augum almennings úti í hinum stóra heimi og sökum þess verður kynning á Íslandi, sem þarf á því að halda, eins og orðspor þess hefur nú farið í kjölfar bankahrunsins, mun öflugri og meiri.

Það er svo, eins og fyrrverandi kvikmyndaendurgreiðsluráðherra veit, að til þess að kerfið gangi upp og sé hagkvæmt verða tekjur ríkisins að vera meiri en það sem greitt er út í formi endurgreiðslunnar. Þegar verkefni eru skoðuð, sem hafa þegar fengið endurgreiðslu frá ríkinu í krafti gildandi laga, kemur berlega í ljós að þau hafa skilað hagnaði til ríkisins, svo sem í formi staðgreiðslu tryggingagjalds og virðisaukaskatts sem er umfram þennan styrk. Það er það jákvæða í málinu. Ég hef látið skoða sérstaklega tiltekin verkefni út frá þeirri forsendu að endurgreiðslan væri 20% og í ljós kemur að ríkið sýnir samt sem áður hagnað.

Frú forseti. Ég tel því að ég hafi fært ákaflega sterk rök fyrir því að heppilegt sé, viðeigandi og tímabært að breyta lögunum með þeim hætti að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 14% í 20%. Ég vænti þess að þeir áhugasömu þingmenn sem hlýða hér á mál mitt — ég er ekki beinlínis að biðja þá um að ljósta höndum saman af fögnuði — styðji það a.m.k. þegar til kastanna kemur og stykkisins og atkvæðagreiðslunnar.