136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[13:52]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra laga um listamannalaun, en frumvarpið byggir að meginstefnu á skipulagi gildandi laga um listamannalaun frá 1991.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru nokkrar en sú stærsta er þó að lagt er til að starfslaunum fjölgi á þriggja ára tímabili úr 1.200 mánaðarlaunum í 1.600. Þá er bætt við þremur launasjóðum, launasjóði hönnuða, launasjóði sviðslistafólks og launasjóði tónlistarflytjenda og jafnframt er Listasjóður lagður niður en hann hefur hingað til sinnt þessum hópum listamanna.

Lög um listamannalaun voru fyrst sett árið 1967 og um áratug síðar voru sett lög um Launasjóð rithöfunda. Þessi tvenn lög voru svo leyst af hólmi með nýjum lögum um listamannalaun sem sett voru árið 1991 en þeim var breytt lítillega á árinu 1996 með hliðsjón af þeirri reynslu sem þá hafði fengist af framkvæmd laganna. Þær breytingar sem þá voru samþykktar lutu einkum að því að kveða skýrar á um tilgang starfslauna listamanna, þ.e. að efla listsköpun í landinu, að leikhúslist yrði gefinn sérstakur gaumur og að kveðið yrði skýrar á um réttarstöðu starfslaunaþega.

Samtök listamanna hafa um árabil þrýst á stjórnvöld að fjölga starfslaunum enda hefur ásókn í listamannalaun aukist mjög á seinni árum í takt við fjölgun starfandi listamanna í landinu. Á þeim tæpu tveimur áratugum sem liðnir eru frá setningu gildandi laga hefur Íslendingum fjölgað um 23% en listamönnum talsvert meira, ekki síst með tilkomu listnáms á háskólastigi í Listaháskóla Íslands, sem stofnaður var haustið 1999. Þrátt fyrir þessa fjölgun hefur fjöldi mánaðarlauna sem eru til ráðstöfunar við úthlutun starfslauna verið óbreyttur í rúman áratug. Hlutfall þeirra sem hafa átt kost á starfslaunum hefur því lækkað.

Í tvígang hafa verið lagðar fram tillögur um breytingar á fyrirkomulagi starfslauna listamanna. Árið 2001 var skipaður starfshópur sem lagði fram breytingartillögu, m.a. að Listasjóður yrði lagður niður og stofnaðir þrír nýir sjóðir: Tónlistarsjóður, Sviðslistasjóður og Hönnunarsjóður. Enn fremur lagði hópurinn til umtalsverða fjölgun mánaðarlauna í öllum launasjóðunum á þriggja ára tímabili. Nokkrum árum síðar lagði stjórn listamannalauna fram greinargerð þar sem lagðar voru til breytingar á lögunum sem hnigu mjög í sömu átt. Stjórnin lagði eindregið til fjölgun þeirra mánaðarlauna sem yrðu til ráðstöfunar við úthlutun starfslauna. Fyrir rúmu ári ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, að vinna að því að fjölga starfslaunum um 400 á næstu þremur árum. Í fyrstu fannst samtökum listamanna sem ekki væri nóg í lagt, nokkurt bakslag kom í málið en með breyttri stöðu í haust skapaðist samstaða um að vinna að því að ná fram þessari fjölgun.

Ég hef tekið við þessu kefli, enda tel ég mjög mikilvægt að koma til móts við erfiða stöðu listamanna. Við efnahagshrunið í haust gjörbreyttist staða þeirra sem og fjölda annarra landsmanna. Þeir sem hafa verið bakhjarlar listgreina hafa margir hverjir dregið að sér hendur og fækkað mjög möguleikum listamanna á að afla sér tekna með listsköpun sinni. Í flestum tilvikum eru þeir því mjög takmarkaðir og því hafa starfslaunin skipt sköpum fyrir mjög marga listamenn, jafnframt því að vera mikilvæg til að þróa og efla listgreinar.

Ég get tekið sem dæmi bókmenningu okkar, sem ég er nokkuð viss um að stæði ekki með sama blóma ef listamannalauna hefði ekki notið við. Rithöfundasamband Íslands hefur lagt fram einfalt reikningsdæmi um tekjur rithöfundar af bók sem kostar 4.500 kr. út úr búð, sem er algengt verð og þykir mörgum hátt. Sambandið gefur sér að það taki rithöfund að jafnaði um tvö ár að skrifa skáldsögu. Ef bókin selst í þúsund eintökum, sem er ágætisárangur, yrðu höfundarlaunin 625.000 kr. og árslaunin því um 300.000 og þætti það nú ekki mikið í flestum tilvikum. Það sýnir að erfitt er að hafa lífsviðurværi sitt af listsköpuninni einni saman. Öll viljum við geta lesið góðar íslenskar bókmenntir, enda óskaplega mikilvægt fyrir samfélagið sem við byggjum, hlustað á íslenska tónlist í flutningi góðra tónlistarmanna, — sem er nú að verða ein af helstu útflutningsafurðum okkar í þessum geira — verið umkringd áhugaverðri myndlist og notið góðra sviðslista. Það gerist ekki nema samfélagið leggi sitt af mörkum, bæði hið opinbera og þeir sem njóta. Með þrengri fjárhag heimila og fyrirtækja verður minna aflögu til að njóta lista og þar með leggja af mörkum til að listamenn geti sinnt sköpun sinni og haft lífsviðurværi sitt af henni og því er brýnt að hið opinbera komi að málum til að styrkja listamannalaunin í þágu íslensks menningarlífs og sjálfsmyndar þjóðarinnar.

Listamenn sem hafa viðurværi sitt af listsköpun teljast sjálfstætt starfandi listamenn í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og fæðingar- og foreldraorlof og af því leiðir m.a. að grundvöllur bóta ræðst af skilum tryggingagjalds og reiknaðs endurgjalds. Réttur til atvinnuleysisbóta getur myndast hafi listamaður samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins mánaðarlega staðið skil á reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Enn fremur skulu sjálfstætt starfandi listamenn reikna sér 414.000 kr. í mánaðarlaun samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins nr. 1211/2008, en í ljósi þess að upphæð starfslauna er 266.737 kr. eru fáir sem ávinna sér slíkan rétt ef þeir hafa lífsviðurværi sitt eingöngu af listamannalaunum. Í frumvarpinu er lagt til að fjárhæð starfslauna verði óbreytt, þ.e. að ekki verði farið í það að hækka launin þó að auðvitað hafi þær kröfur verið uppi, en komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert að teknu tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Ríkisstjórnin vinnur nú að því að efla atvinnutækifæri ýmissa hópa sem hafa farið illa út úr erfiðu efnahagsástandi og listamenn eru þar á meðal. Til að bæta stöðu þeirra telur ríkisstjórnin brýnt að geta fjölgað þeim sem geta notið einhverra starfslauna en samkvæmt frumvarpinu skulu starfslaun veitt til 6, 9, 12, 18 eða 24 mánaða en heimilt er að úthluta starfslaunum til skemmri tíma, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Enn fremur er heimilt að úthluta starfslaunum til lengri tíma en 24 mánaða en þó aldrei lengur en til 36 mánaða.

Alls bárust 560 umsóknir um listamannalaun á árinu 2009, 514 á árinu 2008 og 506 á árinu 2006. Í ár fengu 130 listamenn og 11 leikhópar þau 1.200 mánaðarlaun sem eru til ráðstöfunar til starfslauna eða um fjórðungur þeirra sem sóttu um þannig að við sjáum af þessu að þörfin er brýn.

Eins og fyrr segir er meginbreytingin samkvæmt frumvarpinu sú að þeim mánaðarlaunum sem úthlutað er til starfslauna fjölgar á þriggja ára tímabili um alls 400 mánaðarlaun þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. Sú tala hefur verið óbreytt frá árinu 1997 þegar lögin frá 1991 tóku að fullu gildi. Lagt er til að 145 mánaðarlaun bætist við á árinu 2010, 130 á árinu 2011 og 125 á árinu 2012. Kostnaðaraukinn vegna þessa á árinu 2010 yrði 38,7 milljónir, 34,7 á árinu 2011 og 33,3 á árinu 2012 miðað við verðlag í byrjun árs 2009, alls 106,7 millj. kr. Á móti þessum hækkunum koma til frádráttar fjárveitingar sem þegar hafa verið veittar til málaflokksins en ekki nýttar, samtals 89 millj. kr., sem hefur auðvitað þau áhrif að útgjöld munu ekki hækka eins mikið og ella á árunum 2010 og 2011.

Frumvarpið er samið að undangengnu samráði við Bandalag íslenskra listamanna og samstaða hefur náðst um skiptingu á þeim 400 mánaðarlaunum sem bætast munu við á milli þeirra sex launasjóða sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Fjórir af launasjóðunum, þ.e. launasjóðir hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda og tónskálda eru ætlaðir listamönnum sem vinna að listsköpun en launasjóðir sviðslistafólks og tónlistarflytjenda munu einkum sinna flytjendum og túlkendum. Álitamál er auðvitað hvort hægt er að draga skarpar markalínur á milli, þar sem flutningur og túlkun fela ávallt í sér sköpun en á alþjóðavettvangi er gerður greinarmunur á rétti höfunda hugverka og rétti flytjenda hugverka. Við fyrstu gerð frumvarpsins var þessi túlkun lögð til grundvallar en vegna eindreginna óska stjórnar Bandalags íslenskra listamanna var vikið frá henni á seinni stigum.

Þrír nýir launasjóðir bætast við þá sem eru í gildandi lögum, launasjóður hönnuða, launasjóður sviðslistafólks og launasjóður tónlistarflytjenda en jafnframt leggst Listasjóður af. Hönnun er vaxandi listgrein og full þörf á því að hönnuðir geti átt möguleika á að helga sig listsköpun og þróun fagsins. Sviðslistafólk og tónlistarflytjendur hafa til þessa getað sótt um starfslaun í Listasjóð en samtök þeirra hafa þrýst mjög á um að fá sína eigin launasjóði. Ákvæði frumvarpsins byggjast á þeirri forsendu að starfslaun séu veitt á grundvelli náms- og starfsferils, verðlauna, viðurkenninga og þess verkefnis sem listamaðurinn byggir umsókn sína á. Starfslaunin eru þannig byggð á samkeppni og eru verkefnatengd þannig að þau eru veitt ákveðnum verkefnum. Stjórn listamannalauna mun samkvæmt frumvarpinu fá heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða og eins mun hún fá það hlutverk að móta frekar stefnu og áherslur við úthlutun.

Eins og ég hef nefnt snýst þetta kannski fyrst og fremst um það að við göngum nú í gegnum þrengingar sem bitna ekki síst á menningunni sem um leið hefur aldrei verið mikilvægari fyrir íslenskt samfélag. Við sjáum að aðsókn að menningarviðburðum hefur aldrei verið meiri hér á landi en einmitt nú í efnahagsþrengingunum þegar fólk sækir í önnur gildi en áður hafa kannski verið hafin til vegs og virðingar. Þrengingar í atvinnulífinu draga hins vegar úr möguleikum listamanna til að afla sér frekari tekna og það sama má segja um listastofnanir. Í ljósi þess tel ég afar brýnt að efla starfsemi listamanna frá því sem nú er til að gefa fleiri listamönnum möguleika á að starfa að listsköpun sinni, því að ég tel það eina bestu nýtingu fjármagns sem lagt er í listir og menningu að veita það beint til fólksins sem vinnur að sköpuninni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta frumvarp en því er ætlað að bæta úr stöðu starfandi listamanna. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.