136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

13. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. allsherjarnefnd um tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 182 2. nóvember 1992, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og þetta er venjulega kallað.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu D. Guðmundsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Margréti Júlíu Rafnsdóttur frá Barnaheillum, Margréti Maríu Sigurðardóttur og Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna og Stefán Inga Stefánsson frá UNICEF.

Málið var sent til umsagnar á síðasta löggjafarþingi en því var fyrst hreyft á 121. löggjafarþingi að bæta þyrfti réttarstöðu barna í íslenskri löggjöf samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umsagnir voru jákvæðar.

Með þingsályktunartillögu þessari, sem er að finna á þskj. 13, er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og að frumvarp um lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum skuli liggja fyrir eigi síðar en 20. nóvember 2009, en þann dag var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna einmitt staðfestur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ísland undirritaði sáttmálann í New York 26. janúar 1990, með fyrirvara um fullgildingu og Ísland fullgilti síðan samninginn 27. nóvember 1992. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna tryggir börnum, auk borgaralegra réttinda, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi. Í nefndaráliti kemur fram að vegna tvíeðliskenningar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þurfi að lögfesta alþjóðlega samninga ef tryggt á að vera að þeir hafi bein réttaráhrif hér á landi. Meðan svo er ekki er ekki unnt að beita barnasáttmálanum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum og sú skuldbinding sem sáttmálinn felur í sér gildir einungis að þjóðarrétti. Með þingsályktunartillögunni er lagt til að barnasáttmálinn verði lögfestur með sama hætti og mannréttindasáttmáli Evrópu enda um grundvallarsáttmála að ræða. Á þann hátt væri stjórnvöldum og dómstólum skylt að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða börn. Tillagan felur í sér að kannað verði hvort og þá hverju í gildandi löggjöf þurfi að breyta við lögfestingu sáttmálans, auk þess sem laga þurfi texta sáttmálans að hefðbundnu lagaformi og leggja fram frumvarp vegna aðlögunarinnar.

Ég vil nefna í þessu sambandi að frá gestum sem komu fyrir hv. allsherjarnefnd og í umsögnum um þingsályktunartillöguna kom fram að lögfesting mannréttindasáttmála Evrópu hefði verið stórt skref í þá átt að tryggja mannréttindi betur í sessi á Íslandi, einkum við dómaframkvæmd. Markmið nefndarinnar, sem leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með örlítilli orðalagsbreytingu, er að ná sama árangri hvað varðar réttarstöðu barna. Eins og ég sagði áðan tryggir samningurinn þeim, auk borgaralegra réttinda, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi.

Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar um að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði falið Ragnhildi Helgadóttur, prófessor við Háskólann í Reykjavík, að semja greinargerð um stöðu samningsins að íslenskum lögum og reifa álitamál sem tengjast lögfestingu hans og að sú greinargerð muni væntanlega liggja fyrir í vor. Nefndin telur að sú vinna muni nýtast sem nauðsynlegur grunnur að lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum en í þingsályktunartillögunni er lagt til að frumvarp um lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum skuli liggja fyrir á 20 ára afmæli barnasáttmálans þann 20. nóvember næstkomandi.

Ég vil einnig geta þess, herra forseti, að hv. allsherjarnefnd er kunnugt um að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu fer nú fram endurskoðun barnaverndarlaga og þar er að sjálfsögðu tekið mið af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með örlítilli orðalagsbreytingu sem er að finna á þskj. 672, sem er sama þingskjal og nefndarálitið. Breytingin er fólgin í því að í stað orðanna „vera lokið 20. nóvember 2009“ í tillögugreininni komi: liggja fyrir 20. nóvember 2009.

Hv. allsherjarnefnd leggur því til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Skal frumvarp sem felur í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum liggja fyrir 20. nóvember 2009.

Undir nefndarálitið rita Árni Páll Árnason, formaður allsherjarnefndar, Álfheiður Ingadóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Jón Bjarnason, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal, með fyrirvara, og Sigurður Kári Kristjánsson, með fyrirvara. Birgir Ármannsson og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.