136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

13. mál
[15:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og þeir sem hér hafa talað, fagna þessum áfanga. Ég held að með því að lögleiða barnasáttmálann og alla þá löggjöf sem honum fylgir hugsanlega, sé stigið gríðarlega mikilvægt skref. Auðvitað höfum við unnið eftir þessum sáttmála og þeim samþykktum sem gerðar hafa verið hingað til, en nú verður gert enn betur og málum fylgt eftir til enda.

Það var ánægjulegt þegar ég kom inn á þing fyrir tveimur árum að eitt af fyrstu verkefnum á sumarþingi var einmitt að fjalla um aðgerðaáætlun í þágu barna. Reynt hefur verið að fylgja þeirri áætlun og mörg brýn hagsmunamál barna hafa litið dagsins ljós. Málum hefur verið fylgt eftir á ýmsum vettvangi, hvort sem það snýr að menntamálum eða heilbrigðismálum, og lagaumgjörðin löguð. Margar endurbætur hafa verið unnar. Það er vel við hæfi að eitt af síðari málum á þessu þingi, áður en efnt verður til kosninga og kosið nýtt Alþingi, verði lögfesting barnasáttmálans og allra ákvæðanna sem þar eru.

Ég kem hér aðeins til þess að fagna því og að þessir tveir mikilvægu sigrar hafi náðst á þessu þingi. Ég treysti á að áfram verði gætt hagsmuna barna í störfum þingsins sem hingað til.