136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

virðisaukaskattur.

403. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Ellert B. Schram) (Sf):

Herra forseti. Ég hef tekið að mér að fylgja úr hlaði frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum og geri það í forföllum formanns efnahags- og skattanefndar. Við á hinu háa Alþingi afgreiddum og samþykktum breytingar á þessum lögum um virðisaukaskatt fyrir nokkrum dögum síðan, fyrr í vikunni og það þarf að gera smálagfæringu á þeim lögum sem samþykkt voru. Um er að ræða tvær greinar. Efnisinnihald þessa frumvarps er að í stað orðanna „af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga“ í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV kemur: af þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og 2. gr. þessa frumvarps er að þessi lög öðlist nú þegar gildi.

Þetta er lagfæring. Í frumvarpinu er lagt til að 2. málsl. 2. mgr. í ákvæði til bráðabirgða XV í lögum um virðisaukaskatt verði breytt til samræmis við 1. málsl. umræddrar málsgreinar en þetta láðist að gera í breytingartillögu sem samþykkt var við 3. umr. frumvarps til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að um þetta sé fullt samkomulag. Þetta er bara leiðrétting á nýsamþykktum lögum og ég vona að þetta mál fái hraða afgreiðslu þannig að lögin verði í lagi og í endanlegu formi.

Ég legg til að þessu máli verði vísað til nefndarinnar eða þess þarf kannski ekki, en ég legg það í hendur forseta og til 2. umr.