136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

157. mál
[15:53]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að þetta frumvarp eigi að vera hægt að afgreiða á mjög skömmum tíma. Það hefur áður verið sent út til umsagnar og mikill vilji er fyrir því að hafa lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skýr, þegar lýtur að heimild eða undanþágu fyrir nektardans, svo enginn vafi leiki á því hvað löggjafinn vill í því efni og ekki sé hægt að túlka lögin, eins og gert hefur verið. Það er næstum hægt að segja að lögin séu út og suður eða svona eftir því sem hægt er þegar lög eru eins óljós og gildandi lög.

Getur einn umsagnaraðili, sem viðkomandi veitingastaður eða rekstraraðili verður að sækja til, lagt bann við heimild fyrir nektarsýningum? Eða þarf fleiri en einn aðila? Er þetta alveg afdráttarlaust? Geta nágrannar lagt blátt bann við því að leyfi sé veitt o.s.frv.? Vilji löggjafans verður að vera algjörlega skýr og ég tel að hann sé það í frumvarpinu.

Vegna beiðni um rekstur nektarstaða var leitað eftir umsögn lögreglustjórans í Reykjavík og hún var skýr þó svo að vegna formgalla hafi hún ekki verið tekin gild sem gagn í kærumáli og þar af leiðandi varð að breyta úrskurði sýslumannsins í Kópavogi vegna samsvarandi beiðni.

Borgarstjórnin í Reykjavík taldi að lögreglustjóraembættið í Reykjavík hefði sýnt skýran vilja og varð svo að breyta bókun sinni og heimild með tilliti til úrskurðar sýslumannsins í Kópavogi. Þannig að kallað er eftir því að vilji löggjafans sé skýr.

Í þessum tveimur sveitarfélögum, bæði í Reykjavík og Kópavogi, hafa verið reknir skemmtistaðir sem boðið hafa upp á nektarsýningar. Bæjaryfirvöld á báðum stöðum hafa viljað takmarkanir á það og bann og mér finnst einsýnt að við þeim kröfum verði orðið og í raun og veru þeim kröfum sem eru í samfélaginu um að bann við nektardansi sé afgerandi og enginn vafi á því.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur áður flutt frumvarp þessa efnis og verið ötull baráttumaður gegn klámi og klámvæðingu og að leyfi sé veitt fyrir nektardansi eða svokölluðum súlustöðum. Ljóst er að þessir staðir, súlustaðirnir og nektarstaðirnir, eru uppspretta eða gefa tilefni til að fóðra ýmsa þá starfsemi sem haldið er neðan jarðar og er af því tagi sem við viljum berjast gegn, eins og mansal og önnur slík lögbrot.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál í baráttunni gegn klámvæðingu og mikilvægt að löggjafinn tali skýrt og verði í raun og veru við ákalli borgarfulltrúanna í Reykjavík og annarra og enginn vafi leiki á því hver vilji löggjafans er ef öðrum sveitarfélögum berast slíkar beiðnir.