136. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2009.

Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:38]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Eins og málum er nú komið gerir Sjálfstæðisflokkurinn ekki ágreining við þá tilkynningu sem hér var lesin upp. Það hefur legið fyrir að það stefndi í kosningar 25. apríl og það vantaði að tilkynna um það með formlegum hætti þannig að undirbúningur eins og utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti hafist með eðlilegum hætti. Við þetta gerum við ekki athugasemdir.

Við gerum athugasemdir við þau áform ríkisstjórnarinnar sem fram komu í máli forsætisráðherra áðan og hafa komið fram áður að ætlunin sé að þingið starfi jafnvel vikum saman eftir að þessi tilkynning hefur verið lesin upp á Alþingi um þingrof og kosningar. Það er óeðlilegt.

Hæstv. forsætisráðherra fór yfir nokkur atriði í tengslum við stjórnarskrárbreytingar sem gerðar voru 1991. Þá náðist um það samkomulag að koma í veg fyrir að forsætisráðherra með atbeina forseta — því að það er jú þannig sem það gerist en ekki forseti með atbeina forsætisráðherra — gæti leyst upp þingið með þingrofi, gert þingmenn umboðslausa og sent þingið heim. Nú er það ekki hægt lengur með sama hætti þó að þingrofsrétturinn formlegi sé áfram í höndum forsætisráðherra. Þingmenn halda enn þá sínu umboði. Þetta atriði var hugsað á sínum tíma, eins og við munum sem sátum á Alþingi þá, aðallega til þess að hafa þann möguleika að geta kallað þingið saman frá því að það lyki hefðbundnum störfum og fram að kosningum ef eitthvað óvænt kæmi upp í þjóðfélaginu sem kallaði á atbeina þess. Það er ekkert slíkt yfirvofandi núna sem vitað er um.

Hins vegar er það ekki þannig að þingið geti ekki setið eins og nú er ráðgert að það geri. Þingið hefur heimildir til þess. Lögfræðilega er það leyfilegt en pólitískt er það ekki eðlilegt vegna þess að gera verður ráð fyrir því að frambjóðendur til Alþingis, stjórnmálaflokkarnir og allir aðrir sem láta sig þau mál varða hafi eðlilegan undirbúningstíma í aðdraganda kosninga. Kjósendur eiga líka rétt á því. Núna er tími prófkjara og forvala í flokkunum, landsfundir eru fram undan í þremur eða fjórum stjórnmálaflokkum og ekki er hægt að bjóða upp á það að þingið sé hér að störfum meðan slíkar samkomur eru að störfum. Það er líka ástæðulaust, virðulegi forseti, vegna þess að hægt er að ljúka þingstörfum á mjög stuttum tíma ef vilji er fyrir hendi.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar sem fjallaði um stjórnarskrárbreytingarnar 1991 var vikið að því nýmæli að þingið gæti starfað áfram en það er jafnframt vikið að því að það sé reynsla annarra þjóða sem búa við svipað fyrirkomulag og við að þingið tekur sér aðeins tíma til að afgreiða brýnustu mál, sem alger samstaða er um, en lýkur síðan störfum til að kosningaundirbúningur geti hafist. Þetta er dregið fram í nefndarálitinu 12. febrúar 1991 til að leggja áherslu á að það er ætlast til þess að þingið hætti störfum, ljúki brýnustu málum um leið og búið er að tilkynna formlega um kosningar og þingrof.

Ég tel að ef vel er haldið á spöðum á næstu dögum sé hægt að afgreiða öll brýn mál á Alþingi. Við sjálfstæðismenn munu greiða fyrir því að öll mál sem varða endurreisn efnahagslífsins, atvinnuuppbyggingu, hagsmunamál heimila og atvinnulífs nái hér fram að ganga. Það kom m.a. í ljós á þingfundinum í gær að þingstörfin gengu afar og óvenjulega greiðlega vegna þess að við beittum okkur fyrir því að þessi mál öll mættu ná hratt og vel fram að ganga. Ég hygg að það verði þannig með önnur þau mál af þessu tagi sem ekki eru enn komin á dagskrá þingsins. Þess vegna er mjög brýnt að forsætisráðherra beiti sér nú fyrir því að um frestun þingsins geti tekist gott samkomulag milli allra flokka því að á endanum, eins og við þekkjum og eins og forsætisráðherra gat um, er það þingið sjálft sem ræður því hvenær það lýkur störfum og samþykkir frestunartillögu.