136. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2009.

Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Náðst hefur samkomulag um það að kjördagur verði 25. apríl og er það í samræmi við þann málflutning sem við framsóknarmenn höfum viðhaft, þ.e. að það yrði að kjósa hið fyrsta til þess að stjórnmálamenn geti endurnýjað umboð sitt og til þess að stjórnmálaflokkar geti endurnýjað umboð sitt gagnvart kjósendum.

Þegar við framsóknarmenn lýstum því yfir að við vildum verja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, kæmi slík tillaga upp á vettvangi þingsins, lögðum við aðallega áherslu á þrjú atriði: að komið yrði til móts við skuldug heimili, komið yrði til móts við erfiðleika í atvinnulífinu og að sérstöku stjórnlagaþingi yrði komið á laggirnar.

Ég ætla ekkert að leyna því að við framsóknarmenn viljum ganga mun róttækar fram í málum atvinnulífsins og heimilanna en sitjandi ríkisstjórn gerir. Við munum á þeim dögum sem eftir eru af þessu þingi vinna áfram að því að afla hugmyndum okkar fylgis en við lögðum fram mjög ítarlegar efnahagstillögur til þess að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja. Þær tillögur eru vissulega róttækar en við teljum að í ljósi þess gríðarlega alvarlega ástands sem steðjar að íslensku samfélagi þurfi stjórnmálamenn að koma fram með róttækar hugmyndir og róttækar tillögur. Ég hef í því samhengi talað fyrir því að geri menn ekki neitt — ef menn ætla að vera í einhverjum smáskammtalækningum gagnvart heimilum og atvinnulífinu geti mögulegt kerfishrun verið yfirvofandi og því viljum við framsóknarmenn að sjálfsögðu afstýra.

Þriðja atriðið sem ég nefndi varðar stjórnlagaþingið. Við framsóknarmenn leggjum höfuðáherslu á það að á þeim dögum sem eftir eru af þinginu verði það mál afgreitt. Það er gríðarlegur vilji fyrir því í samfélaginu. Í nýlegri könnun sýnir það sig að 77% þjóðarinnar vilja að stjórnlagaþingi verði komið á. Fjórir af fimm stjórnmálaflokkum á vettvangi Alþingis vilja að sérstöku stjórnlagaþingi verði komið á þar sem almenningur muni án afskipta stjórnmálaflokkanna kjósa sér fulltrúa á það þing.

Stjórnlagaþing er ekki eitthvert einstakt fyrirbrigði sem við erum að ræða hér á Íslandi. Stjórnlagaþingi hefur verið komið á á mörgum tímaskeiðum sögunnar, yfirleitt á miklum tímamótum. Við stöndum á tímamótum, við þurfum að móta okkur nýjar leikreglur í íslensku samfélagi og við þurfum að upphefja ný gildi. Þetta er verkefni framtíðarinnar. Þetta er líka það sem kosningarnar og kosningabaráttan sem fram undan er mun snúast um. Við munum að sjálfsögðu gera upp fortíðina en stjórnmálaflokkarnir í komandi kosningabaráttu þurfa líka að hafa skýra framtíðarsýn, skýra stefnu til framtíðar um hvernig við ætlum að endurreisa íslenskt samfélag. Ég hef ekki trú á því að kjósendur muni aðhyllast þá stjórnmálaflokka sem eingöngu vilja líta aftur fyrir sig.

Við framsóknarmenn gerum okkur grein fyrir því að fram undan er mikið átak í því að byggja upp öflugt íslenskt atvinnulíf til þess að styrkja stöðu heimilanna. Það er verkefni dagsins í dag. Við fórum fram árið 1995 með þá stefnu að skapa tólf þúsund ný störf í íslensku samfélagi. Það var hlegið að því þá. Við munum leggja áherslu á atvinnumál í komandi kosningabaráttu sem verður snögg en fram að því þurfum við að nýta tímann vel hér á vettvangi Alþingis til þess að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja og síðast en ekki síst að koma á fót stjórnlagaþingi.

Ég tel að þeir tímar séu runnir upp að stjórnmálamenn þurfi að hugsa meira um fólkið í landinu en flokkinn sinn en mér hefur fundist, í umræðum hér á Alþingi, að sumir tali fyrst fyrir flokkinn sinn en síðan fyrir almenning. Við viljum að almenningur fái að kjósa til stjórnlagaþings án þess að stjórnmálaflokkarnir séu innviklaðir í það. Þetta er skýr stefna okkar framsóknarmanna og ég er tilbúinn að starfa hér fram á nætur og fram undir morgna til þess að koma þessu stefnumáli í gegn, enda er það skýr krafa og skýr vilji almennings að við gerum það hér á vettvangi þingsins og það er verkefni okkar fram undan.