136. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2009.

Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:56]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Þær þingkosningar sem nú eru fram undan boða endalok ákveðins skeiðs í stjórnmálasögu landsins sem afmarkaðist fyrst og fremst af takmarkalausu frelsi og takmarkalausu olnbogarými til auðsöfnunar fárra einstaklinga í þjóðfélaginu. Niðurstaðan úr þessum kosningum þarf að mínu viti að fela í sér skýr skilaboð um að enginn geti orðið svo ríkur og auðugur hér á landi að hann þurfi ekki að taka ábyrgð á samfélaginu með öðrum þegnum þjóðarinnar, með því að leggja sitt af mörkun í greiðslu skatta og skyldna — að enginn geti verið svo áhrifamikill í þjóðfélaginu að hann þurfi ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum og axla ábyrgð á því sem miður fer.

Margt hefur farið úrskeiðis á undanförnum árum eins og sjá má á þeim tíðindum sem orðið hafa og við þurfum að gera það upp og marka þá stefnu sem menn hafa löngum áður fylgt, hverfa aftur til gamalla og gróinna gilda í þjóðfélaginu sem einkennast af frumkvæði, samhjálp og hófsemi. Með það að leiðarljósi held ég að íslenskri þjóð séu allir vegir færir í framtíðinni.