136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:13]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mér satt að segja mjög mikið á óvart að hæstv. samgönguráðherra skyldi nota tækifærið til að kynna þingheimi samning um háhraðatengingar í tengslum við það frumvarp sem hér er til umræðu, ekki síst vegna þess að Alþingi samþykkti fjarskiptaáætlun sem gerði ráð fyrir því að uppbyggingu háhraðatenginga til dreifbýlis á Íslandi væri lokið í árslok 2007. Nú í marsmánuði 2009 hlustum við á hæstv. samgönguráðherra hreykja sér af því að loksins sé búið að skrifa undir samning en ekki verði lokið við framkvæmdir fyrr en eftir 18 mánuði. Fjarskiptasjóður hafði fjármuni og þessi seinagangur er því algerlega óforsvaranlegur og óboðlegur og óskiljanlegur og það þýðir ekki fyrir hæstv. samgönguráðherra að koma hér og segja að þetta hafi verið mikilvægt til þess að tæknilausnir þróuðust. Ég held að það sé mikil bjartsýni hjá honum að kenna því um og þakka það að svo góður samningur hafi náðst að verið væri að þróa tæknilausnir. Það er alls ekki svo. Þetta mál hefur þvælst fyrir stjórn Fjarskiptasjóðs og samgönguráðherra í fleiri mánuði til stórskaða. (Gripið fram í.) Hv. þm. sem kallar fram í, Jón Bjarnason, ræddi oft mjög um að það þyrfti að hraða þessu máli og ég vænti þess að hann sé sammála mér að þessi seinagangur við uppbyggingu háhraðatenginganna út um landið sé algerlega óviðunandi. (Gripið fram í: Og óverjandi. ... í kosningunum 2007 hjá þér.)