136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér um Bjargráðasjóð en ég verð að taka undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að ræða hæstv. samgönguráðherra er þess eðlis að maður hlýtur að fara í andsvar. Hér kemur hæstv. samgönguráðherra og hreykir sér bara of hátt, það var bara fyrir neðan allar hellur að hlusta á þau orð sem hér féllu um það að tengja háhraðanetið um landið. Sú er hér stendur hefur ekki verið samgönguráðherra og ekki verið í samgönguráðuneytinu en veit að þegar sala Símans fór fram á sínum tíma voru bundnar geysilega miklar vonir við að þetta mál mundi klárast hratt og vel. Fólk um allt land er auðvitað orðið langþreytt á að bíða.

Það er alveg ljóst að hv. þm. Sturla Böðvarsson lagði mikla vinnu í þetta mál. Auðvitað gat það gengið hraðar í tíð síðustu ríkisstjórnar en líka núna. Að hlusta á hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller monta sig hér af því að þetta mál sé að klárast eftir 18 mánuði er fyrir neðan allar hellur að mínu mati. Það er líka rétt sem kom fram í frammíköllunum, fagráðherrar hafa áhrif á forgangsröðun innan þeirra ramma sem þeir vinna með í fjárlögum. Það er alveg rétt.

Aðalatriðið núna er að þetta klárist sem fyrst, þessi seinagangur hefur verið óásættanlegur og ég vil bara koma því skýrt á framfæri að það er bara ekki við hæfi að hæstv. samgönguráðherra skuli hreykja sér af þessu máli hérna. Það er ekkert tilefni til þess. Þetta átti að vera löngu búið, það er eðlilegt að skýra frá stöðu mála en að hreykja sér með þessum hætti yfir málinu, berja sér á brjóst og láta í það skína að hæstv. ráðherra hafi bjargað þessu öllu í horn er bara ekki sannleikanum samkvæmt að mínu mati.