136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð. Þetta er mál sem ég fagna mjög að sé komið í umræðu á vettvangi þingsins því hér hefur náðst sátt um að þessi mikilvægi sjóður starfi áfram. Eins og við vitum hefur verið ákveðið ósamkomulag um starfsemi sjóðsins á undangengnum árum og nú er það svo að sveitarfélögin hafa dregið sig út úr því en sjóðurinn heldur áfram störfum sínum og verður í sameign ríkisins og Bændasamtaka Íslands.

Með þessu frumvarpi sem við ræðum hér er líka gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að sjóðurinn komi að því erfiða ástandi sem blasir við bændastéttinni um þessar mundir. Ótrúlegar hækkanir á áburði á síðustu missirum hafa leitt til þess að margir munu eiga í miklum erfiðleikum með að festa kaup á áburði. Það er lausafjárskortur í þessari atvinnugrein eins og í svo mörgum öðrum atvinnugreinum í dag og því er brýnt að við komum að því að mæta þeim mikla vanda sem blasir við.

Á fundi á Akureyri á dögunum sem ég sat tjáði bóndi sem var á þeim fundi þá reynslu sína að á síðasta ári hefði orðið um 80% hækkun á áburði á milli ára og nú stefndi í aðra hækkun, um 50% ofan á þá 80% hækkun sem varð árið á undan. Hækkunin á áburði til bænda er því um 170% á einungis tveimur árum. Og eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson rakti áðan má gera ráð fyrir því að kostnaðarauki bændastéttarinnar vegna þessara gríðarlegu hækkana sé um 2.000 millj. kr. og það munar um minna. Það segir sig sjálft að í því árferði sem nú ríkir og í ljósi ákvörðunar fyrri ríkisstjórnar um að skerða búvörusamningana um 700–800 millj. kr. hlýtur að þurfa að grípa til róttækra aðgerða. Þess vegna fagna ég þessu fram komna frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að Bjargráðasjóður komi til móts við aukinn kostnað vegna áburðarkaupa sem getur verið allt að 700 millj. kr. En þá stendur út af sú skerðing sem bændur urðu fyrir í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem verðlagsuppfærslur á búvörusamningum fylgdu ekki verðlagsþróun eins og skrifað hafði verið undir í samningi milli landbúnaðarráðherra og fulltrúa bændastéttarinnar. Það leiðir náttúrlega af sér að staða þessarar mikilvægu stéttar verður mun verri en menn gerðu ráð fyrir því menn ætlast til þess að gerðir samningar standi.

Það hlýtur því að vakna upp sú spurning í þessari umræðu hvort ný ríkisstjórn ætli að beita sér fyrir því að endurskoða þetta brot fyrrverandi ríkisstjórn gagnvart bændum, þ.e. að svíkja gerða samninga. Ég sé að hv. þm. Jón Bjarnason er kominn í salinn en hann gegnir ábyrgðarmiklu hlutverki hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem er aðili að núverandi ríkisstjórn. Hann gagnrýndi harðlega umrædda skerðingu til bændastéttarinnar (ÁI: Ég gerði það líka.) og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem kallar fram í, og nú er mikilvægt að við fáum það fram frá hv. þm. Vinstri grænna hvort þeir vilji beita sér fyrir því að menn endurskoði þá ákvörðun sem tekin var. Við hljótum að deila þeirri skoðun að mikilvægi bændastéttarinnar, að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hafi aldrei verið jafnmikið og í dag. Við þurfum að standa vörð um þessa mikilvægu atvinnugrein og við sem höfum talað fyrir því að standa vörð um hana og efla hana, á móti mörgum frjálshyggjumönnum og samfylkingarmönnum á undangengnum árum, ég held að það sanni sig í dag að það að stjórnvöld hafi staðið vörð um íslenskan landbúnað skiptir verulegu máli. Við þurfum fyrst og síðast að huga að matvælaöryggi þjóðarinnar á tímum sem þessum, á þeim tímum þegar gjaldmiðill okkar stendur mjög veikum fótum, verð á innfluttri matvöru er mjög hátt og því skiptir miklu máli, ekki bara fyrir bændur að staða stéttarinnar verði tryggð heldur líka fyrir íslenskar neytendur. Í því verðbólgubáli sem geysar nú í íslensku samfélagi vil ég benda á að innlend matvælaframleiðsla hefur að nokkru leyti haldið aftur af verðbólgu. Hefðum við treyst á enn meiri innflutning á erlendum matvælum væri verðbólgan mun meiri en hún er í dag því íslenskur landbúnaður hefur haldið mjög aftur af hækkunum á afurðum sínum. En það er spurning hversu lengi atvinnugreinin getur staðist það í ljósi þess að stjórnvöld hafa svikið gerða samninga við stéttina og í ljósi ytri áhrifa, m.a. hvað varðar áburðarverðið en samkvæmt þessu frumvarpi stendur til að Bjargráðasjóður muni greiða allt að 700 millj. kr. til bænda til að standa straum af áburðarkaupum.

Hér er samt ekki um neina dúsu að ræða og hér er ekki um neitt sérstakt góðverk að ræða af hálfu núverandi ríkisstjórnar því að þessi sjóður er m.a. fjármagnaður af búnaðargjaldi sem bændur sjálfir greiða og því skulu menn fara varlega í það að guma sérstaklega af þessum 700 millj. kr. sem verja á til bændastéttarinnar vegna áburðarkaupa vegna þess að þetta eru fjármunir stéttarinnar sjálfrar. Bændur hafa lagt milljarða í þennan sjóð á undangengnum árum og það er ekki nema sjálfsagt á þeim tímum sem við upplifum nú að bændur eigi heimtingu á því að fjármunir verði teknir út úr sjóðnum til að koma til móts við þann bráða vanda sem nú steðjar að þessari atvinnugrein eins og svo mörgum öðrum.

Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að þetta mál fái hraða afgreiðslu á vettvangi þingsins og Bjargráðasjóður greiði þessa fjármuni út hið fyrsta. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem við þurfum að afgreiða á þessu þingi áður en við göngum til alþingiskosninga. Það eru margar aðgerðir sem við þurfum að fara í til að mæta þörfum atvinnulífsins og bænda og neytenda og þetta er einungis lítill hluti af því en um leið mikilvægur.

Það kom ansi merkileg umræða upp áðan og eiginlega óskyld því frumvarpi sem við ræðum en það var umræða um háhraðatengingu í sveitum og það var hnútukast á milli þingmanna um fortíðina og hvernig að þeim málum hefur verið staðið. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á það á sínum tíma að sveitir landsins yrðu háhraðatengdar hið fyrsta. Það er í raun og veru hluti af því að lifa á 21. öldinni að lífsgæðin séu hin sömu til sveita og í stærri bæjum og í höfuðborg landsins. Það á að vera sjálfsagt og eðlilegt að fólk geti menntað sig og aflað sér víðtækrar þekkingar í gegnum nútímatækni. En eins og við þekkjum og vitum er ástandið í mörgum samfélögum á landsbyggðinni algerlega óviðunandi og að þessi mál hafi dregist jafnmikið og raun ber vitni. Í raun og veru ætti enginn að hæla sér af því að það mál að háhraðatengja sveitir landsins skuli fyrst vera að ganga í gegn núna, árið 2009. Í fyrsta fasa er lögð áhersla á Norðurland, Austurland og Vestfirði. Þetta átti að vera fyrir löngu búið að gerast og í raun og veru er saga uppbyggingar háhraðanets í sveitum landsins ein samfelld sorgarsaga og engum til sóma. Það var búið að tryggja fjármuni í þetta verkefni á sínum tíma en málið hefur þvælst í kerfinu milli símafyrirtækja, milli stofnana og er í raun og veru algerlega til vansa og leiðinda því það skiptir okkur miklu máli að ganga frá háhraðatengingum til sveita hið allra fyrsta.

Að lokum þetta, hæstv. forseti. Við framsóknarmenn styðjum frumvarp til laga um Bjargráðasjóð eindregið. Við leggjum mikla áherslu á að málið fái mjög hraða meðferð á vettvangi þingsins og að það verði að lögum hið fyrsta þannig að hægt verði að koma til móts við þann mikla vanda sem steðjar að íslenskum landbúnaði nú. Á það leggjum við mikla áherslu og þetta er að sjálfsögðu ekki síðasta málið og langt frá því á þessu þingi sem við afgreiðum héðan til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja í landinu og þá ekki hvað síst til móts við íslensku bændastéttina.