136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á margt sem skiptir verulegu máli. Löggjöfin hefur því miður verið mjög sniðin að þörfum kröfuhafa, ef til vill einum of og Alþingi hefur ekki gætt sín, enda liggur það kannski í því að Alþingi semur ekki þau frumvörp sem verða að lögum eins og ég hef margoft bent á.

Ég ætlaði að koma inn á það mál sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flytur, ásamt fleiri góðum hv. þingmönnum. Það fjallar um ábyrgðarmenn og reynir að takmarka þann ósið sem er í gangi á Íslandi, afskaplega útbreiddur, að velta ábyrgðinni af lánveitandanum yfir á einhverja ábyrgðarmenn í staðinn fyrir að lántakandinn sjálfur beri ábyrgð á því að verkefnið gangi upp sem hann er að fá lán til og líka að sá sem veitir lánið beri ábyrgð á að það fari til skynsamlegra verkefna en ekki í einhverja vitleysu. Ég held að það sem hv. þingmaður nefndi um ábyrgðarósómann í þjóðfélaginu leiði til mikils ábyrgðarleysis og agaleysis, bæði hjá lántakendum en alveg sérstaklega hjá lánveitendum. Ég vil því skora á hv. þingmann sem er í hv. nefnd að veita því máli gott brautargengi þannig að það verði loksins afgreitt frá Alþingi því að meðgangan hefur tekið 13 ár. Ég held að kominn sé tími til að það ágæta frumvarp fari að fæðast.