136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að frumvarp hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar o.fl. um ábyrgðarmenn verði að lögum. Því miður var því vísað til hv. viðskiptanefndar en við í allsherjarnefnd (Gripið fram í.) — já, því miður, af því að ég hefði gjarnan viljað hafa það í allsherjarnefnd en það er í góðum höndum í viðskiptanefnd og ég veit að þar situr flutningsmaðurinn, 1. flutningsmaður, og ég veit að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, hefur áhuga á málinu og koma því í gegn.

Mjög mikilvægt er að málið komist í gegn því að það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefndi að ábyrgðarmannakerfið leiðir til siðleysis og líka skortur á því úrræði sem við erum að lögleiða nú, greiðsluaðlögun. Bankar sem hafa átt þess kost að elta fólk og ganga að því nokkurn veginn án takmarkana þegar skuldarar hafa ekki möguleika á að takmarka áhrif gjaldþrot, þeir bankar lána auðvitað fólki um of því að þeir ætla sér að geta gert fólki lífið óbærilegt ef allt fer á versta veg. Greiðsluaðlögunarúrræðið sem við erum að fara að lögfesta núna mun einmitt setja hömlur á þetta og mun þvinga bankana til þess að gæta meiri ábyrgðar því að þeir sjá að ef allt fer á versta veg, ef fasteignaverð hrynur, ef eignaverð hrynur í landinu, ef fólk stendur ekki í skilum og missir tök á skuldamálum sínum, þá geti fólk komist út á einhverju árabili með því að greiða í samræmi við greiðslugetu. Það hlýtur auðvitað að vera viðvörunarbjalla fyrir bankana.

Með sama hætti er þetta ástand varðandi ábyrgðarmannakerfið algjörlega ófært. Það þarf samspil ýmissa úrræða til að setja hömlur á óábyrgar lánveitingar að þessu leyti.