136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:03]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu, ég tek undir allt sem kom fram í máli hans. Mig langaði þó að nefna það sérstaklega að hlutverk okkar núna, það stærsta og mikilvægasta, er að tryggja aflahæfi fólks. Það er það sem kemur til með að standa undir hagkerfinu og það mundi tryggja vöxt þess og endurreisn. Það er algert lykilatriði.

Komið hefur fram í skýrslum og greinargerðum sem gerðar hafa verið að það áfall sem Ísland hefur orðið fyrir hefur haft gríðarleg áhrif á einstaklinga og fyrirtæki í landinu og hlutverk okkar núna er að reyna að tryggja að við komumst út úr þessu. Lykillinn að því er að reyna að tryggja aflahæfi fólks. Ef aflahæfið er ekki til staðar verður ekkert hagkerfi.

Mig langaði líka að nefna annað í þessu samhengi. Ég skil greiðsluaðlögunarafgreiðsluna á þann veg að hún eigi við um alla skuldara, sama hvort um sé að ræða þriðja manns ábyrgð eða skuldarann sjálfan. Ef minnsti vafi er á því að svo sé, og ef tekst að afgreiða út úr viðskiptanefnd frumvarp til laga um ábyrgðarmenn, er mjög einfalt að setja ákvæði í það frumvarp sem vísar einfaldlega til þess að í þessum tilvikum megi beita þessu úrræði. Ég taldi sjálfur að þetta gerðist án þess að afgreiða þyrfti það sérstaklega en ef minnsti vafi leikur á því tel ég bæði sjálfsagt og eðlilegt að úr því verði bætt í afgreiðslu viðskiptanefndar.