136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:05]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt athugað að samkvæmt greiðsluaðlögunarferlinu, eins og það er lagt upp í þeim lögum sem hér eru til umræðu, falla þriðja manns ábyrgðir ekki undir, þ.e. eftir sem áður er hægt að ganga að þeim. Það er mjög mikilvægt að allur potturinn verði undir að þessu leyti. Í Noregi koma þriðja manns ábyrgðir þarna einnig undir. Það er nefnilega svo mikilvægt, hið ágæta íslenska orðalag, að menn rísi undir skuldum sínum. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga við þessar aðstæður.

Við höfum ekkert við það að gera að hafa kengbogið fólk eða fólk á hnjánum að baslast við að borga skuldir. Við þurfum fólk sem getur af fullum krafti staðið undir því að borga skuldir, getur risið undir þeim, og við þær aðstæður verðum við að gæta sanngirni, meðalhófs og skynsemi. Þess vegna skiptir svo miklu máli að skapa fólki aðstæður til að takast á við þá erfiðleika sem fram undan eru með það að leiðarljósi að það geti sem fyrst öðlast eðlilegt líf, það geti átt möguleika á því að gera það sem alla langar auðvitað mest til að gera, þ.e. að standa skil á skuldum sínum. En til þess þurfum við að hrinda hindrunum í löggjöf úr vegi og auðvelda fólki að rísa undir skuldunum. Það þarf að gera með margvíslegum úrræðum, eins og við höfum verið að ræða um nú, og hömlur á þriðja manns ábyrgðir eru einn þáttur í því.