136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

heimsókn fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:06]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um nýafstaðna heimsókn fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Eins og kunnugt er var í efnahagsáætlun þeirri sem samþykkt var og unnin í samstarfi ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á síðasta hausti gert ráð fyrir því að fyrsta úttekt á stöðu mála hér á landi færi fram í febrúar. Það mun hafa dregist í einhverjar vikur og ekkert við því að segja en jafnframt var gert ráð fyrir því að í þessari heimsókn yrðu lögð fram drög að áformum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, annars vegar fyrir árið 2010 og hins vegar fyrir árin 2011 og 2012. Nú hefur ekkert komið fram opinberlega um þetta mál og ekkert komið fram af hálfu fulltrúa gjaldeyrissjóðsins sem þó hafa tjáð sig ítrekað við fjölmiðla eins og jákvætt er og ber að fagna, það hefur ekkert komið fram um þessi atriði. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þessi mál. Getur hann upplýst okkur um það hver staðan er á þessum tilteknu atriðum, ríkisfjármálavinnunni eins og hún snýr að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum a) fyrir árið 2010, b) fyrir árin 2011 og 2012?

Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frestað því og þá að ósk hverra að taka afstöðu til þessara mála? Hefur ríkisstjórnin beðið um frest og fengið hann? Er ætlunin að skjóta þessu máli á frest, jafnvel alla leið fram yfir kosningar?

Ég vildi gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra útskýrði stöðu þessa máls fyrir okkur í þessum óundirbúna fyrirspurnatíma.