136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

heimsókn fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Heimsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varð ívið lengri en reiknað hafði verið með. Hún stóð í fullan hálfan mánuð einfaldlega vegna þess að það var meiri vinna sem var unnin í tengslum við heimsóknina sem tengdist því að fara mjög vel yfir stöðuna hvað varðar endurskipulagningu bankakerfisins og fara vel yfir stöðuna hvað varðar nýjustu upplýsingar um skuldastöðu þjóðarbúsins og fleira í þeim dúr. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur að sjálfsögðu talað fyrir sig sjálfur, það gerði hann á blaðamannafundi þar sem hann lýsti í öllum aðalatriðum yfir ánægju með niðurstöður af úttekt sinni hér. Þau mál væru samkvæmt áætlun. Ríkisstjórnin hefur ekki óskað eftir neinum frestum eða neinum breytingum á þeim áformum sem unnið er eftir en það er ljóst að ferlinu hefur þegar seinkað um einhverjar vikur einfaldlega vegna þess að koma þeirra hingað dróst og síðan varð heimsóknin lengri en til stóð.

Meginlínur í sambandi við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2010 voru að sjálfsögðu kynntar fyrir sjóðnum sem og meginlínur eða útlínur fyrir áætlun til meðallangs tíma eins og gert er ráð fyrir í áætluninni. Það er eftir að ljúka nokkrum tæknilegum atriðum í þeim efnum. Það verður gert með bréfaskriftum og samskiptum á næstunni og í kjölfar þess er gert ráð fyrir að málið verði tilbúið til að ganga sína leið í kerfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og undirbúa fyrirtekt stjórnar á því sem er fyrirhuguð einhvern tíma í síðari hluta aprílmánaðar að óbreyttu. Málið er því í alla staði í raun og veru á þeirri áætlun sem unnið hefur verið eftir og fer samkvæmt þeim reglum sem gilda um samskipti íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.