136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Varðandi frekari lánveitingar eða hvenær frekari lán verða afgreidd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá held ég að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að það mundi gerast fyrr en að lokinni endurskoðun áætlunarinnar, þeirri sem nú stendur yfir og varð tilefni heimsóknarinnar hingað. Í beinu framhaldi af því að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fellst á endurskoðunarskýrsluna geri ég ráð fyrir því að næstu lán yrðu afgreidd.

Varðandi það sem hér eru kölluð tæknileg atriði þá lúta þau að nokkrum þáttum. Það er ætlunin að sjá fyrir sér í nýrri samstarfsyfirlýsingu tímasetningar t.d. hvað varðar lánafyrirgreiðslu frá norrænum seðlabönkum og seðlabönkum annarra landa. Það hefur verið ætlunin að þar sæju menn líka fyrir sér hvar endurskipulagning banka- og fjármálakerfisins, þar á meðal sparisjóðanna og þeirra fjármálastofnana sem eru núna sérstaklega til skoðunar, eru á vegi stödd. Það hefur verið ætlunin að fá betri kortlagningu á heildarskuldastöðu þjóðarbúsins, hvernig það yrði orðað og hvernig greiðsluþol þjóðarbúsins yrði metið í ljósi þeirra upplýsinga. Það eru tæknileg, og má segja að hluta til efnisleg atriði af þessu tagi sem ætlunin er að skoða betur og ganga endanlega frá orðalagi á á næstu dögum, viku eða 10 dögum, og þá verður skýrslan endanlega tilbúin til að ganga til stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.