136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:16]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að afar brýnt að þessar upplýsingar komi fram hið allra fyrsta ekki síst vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn var gagnrýnd harkalega fyrir skort á upplýsingum og lýðræðislegum vinnubrögðum ekki síst af hæstv. núverandi fjármálaráðherra.

Í umræðu um efnahagsmál sem fór fram í þinginu 22. janúar sagði hæstv. núverandi fjármálaráðherra, með leyfi forseta, þar sem hann vitnar til gömlu ríkisstjórnarinnar, að henni hafi algerlega mistekist að mæta óskum samfélagsins um upplýsingar, um að breytt verði um vinnubrögð, að hlutirnir verði opnir, gagnsæir, lýðræðislegir og heiðarlegir og að við skiljum gömlu aðferðirnar eftir.

Ég vil því brýna hæstv. fjármálaráðherra til þess að drífa í að þessar upplýsingar liggi fyrir hið allra fyrsta og ekki síst vegna þess að kosningar eru fram undan og fólk þarf tíma til að geta metið það hvert stjórnvöld eru að fara í áformum sínum um ríkisfjármál og það hvert við stefnum í raun og veru með allt þetta mál.