136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

yfirfærsla lána milli gömlu og nýju bankanna.

[15:18]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Okkur þingmönnum berast iðulega símtöl og tölvupóstar frá fólki og í fjöldamörgum þeirra er fullyrt að við yfirfærslu lána úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana hafi átt sér stað afskriftir á lánum sem færð voru á milli. Talað er sérstaklega um gengisbundin lán og er mismunandi eftir einstaklingum hvaða rök eru lögð fram. Heyrst hafa tölur um að lánin séu afskrifuð um 50–60% eftir því hvernig gengiskörfurnar eru þegar fært er á milli. Ef svo er, sem ég get ekki fullyrt um, spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra um þetta.

Ég spyr einnig, ef slíkt er í gangi, hvaða vinnureglur eru viðhafðar? Er miðað við myntkörfur, er miðað við einstaklingslán, íbúðalán? Eru einhvers konar vinnureglur eftir fyrirtækjaflokkum eða stærð fyrirtækja? Eða eru yfirleitt einhverjar vinnureglur í gildi?

Ég tel nauðsynlegt að fá það upplýst hér hvort hæstv. viðskiptaráðherra veit um slíkt og hann upplýsi þingið um það hvort slíkar vinnureglur séu í gildi og hvernig þær eru notaðar. Ef þær eru ekki í gildi tel ég líka nauðsynlegt að hæstv. viðskiptaráðherra upplýsi það skýrt og skilmerkilega að slík vinnubrögð séu ekki notuð (Forseti hringir.) við færslu skulda frá gömlu bönkunum og yfir í nýju bankana.