136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

álit Samkeppniseftirlitsins um Bændasamtökin.

[15:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst vera kjarni þessa máls er það að Bændasamtökin hafa þessa sérstöðu sem ég nefndi. Þau eru á vissan hátt stéttarfélag að því leytinu að það er lögbundið hlutverk þeirra að fjalla um hagsmuni bænda og það verður varla gert nema á vettvangi þeirra, á búnaðarþingi, hafi menn einhverja skoðun á því hvert skuli stefnt í þessum efnum.

Hluti af kjörum bænda ræðst af því hvert söluverð afurða þeirra er og ég tel eðlilegt að bændur ræði þessi mál sín í milli, sérstaklega í ljósi þeirra erfiðleika sem hafa dunið yfir bændastéttina með hækkandi aðföngum, og þá er auðvitað ekkert óeðlilegt að forustumenn bænda og þeir fulltrúar sem sitja á búnaðarþingi hafi skoðun á því með hvaða hætti eigi að bregðast við slíku.

Ég get ekki fallist á það með hæstv. viðskiptaráðherra að það sé algerlega hægt að leggja þetta að jöfnu við viðræður ýmissa starfsstétta sem hæstv. ráðherra nefndi áðan vegna þess að þessi samtök hafa þarna algera sérstöðu. Þau urðu til við sérstakar aðstæður með sameiningu tveggja samtaka og sú sameining leiddi til lagabreytinga sem ekki var talið að þýddi að þessi mál féllu undir samkeppnislöggjöfina.