136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er hollt að hafa í huga hvers vegna bankakerfið hrundi. Það var vegna þeirrar stefnu sem þáverandi ríkisstjórnir ráku gagnvart fjármálalífinu, taumlaus græðgi og útþensla. Nú þurfum við þess vegna að byrja á því að afmarka þá stærð sem íslenskt bankakerfi á að hafa. Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra: Er búið að ákveða hversu stórt bankakerfi hentar nú við íslenskar aðstæður? Mér finnst mjög mikilvægt að það sé gert.

Hæstv. viðskiptaráðherra kom inn á þessi mál og þarna er verið að gera mikið og eins hratt og kostur er. En það er afar mikilvægt að viðskiptabankarnir núna, þessir nýju bankar, fái sem allra fyrst starfsgrundvöll og að það fólk sem vinnur í þeim bönkum fái líka starfsfrið. Það verður þess vegna að gera þessi skýru skil á milli nýju bankanna og þeirra gömlu til að hægt sé að byggja upp bæði traust og öryggi og góða þjónustu sem ríður á gagnvart heimilum og atvinnulífi. Ég tel t.d. að það eigi að skipta um nöfn á bönkunum eins og Kaupþingi og Glitni, það sé einn liður í því að endurvekja traust og sýna fram á að þarna hafi orðið skil.

Mér finnst allt of loðin svör hvað varðar stöðu og framtíð sparisjóðanna. Hæstv. ráðherra sagði að þeir gætu sótt um stuðning frá ríkinu að uppfylltum skilyrðum. Ég vona þá að þeim sparisjóðum sem í rauninni uppfylla skilyrðin og geta fengið að starfa áfram sé búinn nægilega traustur grunnur, að þeir séu þá ekkert að láta þá bíða eftir einhverjum öðrum sem ekki uppfylla skilyrðin. Á grunni hugsjóna sparisjóðanna er afar mikilvægur þáttur í (Forseti hringir.) uppbyggingu á heilbrigðu fjármálalífi í landinu.