136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:13]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um það hvort búið sé að leggja einhvern hluta af þessum 385 milljörðum kr. inn í bankana vil ég svara því til að það er ekki búið en hins vegar munu bankarnir hafa fengið allnokkra fyrirgreiðslu í Seðlabanka út á þetta loforð þannig að það dregur úr þeim vandræðum sem töfin á því að leggja þetta fé fram hefði ella valdið.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um það hvort viðræður við kröfuhafa séu hafnar er því til að svara að þær eru ekki formlega hafnar. Það er hins vegar búið að undirbúa mjög vel að hefja þær viðræður og m.a. búið að ráða ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint til að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar í þeim málum og jafnframt hafa alls konar óformlegar þreifingar farið fram. Það er búið að ræða við kröfuhafa, bæði ráðherrar og Fjármálaeftirlitið og skilanefndir og fleiri aðilar. Menn hafa hent hugmyndum sín á milli án þess að þær geti þó talist formlegar viðræður. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að hefja þær raunar um leið og mat á eignum gömlu bankanna sem fara yfir í nýju bankana liggur fyrir.

Varðandi sparisjóðina er því til að svara að mér er ekki kunnugt um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi neina sérstaka afstöðu til þess hvert hlutverk sparisjóðakerfisins á að vera á Íslandi í framtíðinni. Hins vegar get ég sagt fyrir mitt eigið leyti að ég tel alveg víst að hér verði sparisjóðir á næstu árum og áratugum. Nákvæmlega hvert hlutverk þeirra verður, hversu stórt það verður, liggur ekki fyrir núna en það er ekkert því til fyrirstöðu að sparisjóðir gegni talsverðu hlutverki í nýja íslenska fjármálakerfinu og raunar vona ég eindregið að það gangi eftir.