136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

360. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti á þskj. 707, um tillögu til þingsályktunar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, frá 6. júní 2008, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1315/2007, um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð nr. 2096/2005.

Skilgreint er í reglugerð nr. 1315/2007 umfang eftirlits gagnvart flugleiðsögu, auk flæðisstýringar flugumferðar, ATFM, og loftrýmisstjórnunar, ASM. Í reglugerðinni er nánar fjallað um eftirlit með starfsleyfishöfum flugleiðsöguþjónustu, fyrirkomulag og mögulegt framsal úttekta, verklag varðandi frávik í úttektum og leiðréttingu þeirra og eftirfylgni auk eftirlits með breytingu á starfsemi leyfisskyldra aðila og endurskoðun á verklagi vegna breytinga á þjónustu starfsleyfishafa o.fl.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en þingmál þessa efnis, frumvarp frá samgönguráðherra, var lagt fram á þessu þingi og hefur reyndar núna þegar verið samþykkt með breytingum á lögum um loftferðir.

Það er rétt að geta þess í þessu samhengi að eðlilegi framgangsmátinn við afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara er að Alþingi samþykki fyrst þingsályktunartillögu þess efnis og í framhaldi séu lögð fram frumvörp ef þess reynist þörf.

Í þessu tilviki var frumvarp samgönguráðherra lagt hér fram og það var afgreitt áður en þessi þingsályktunartillaga var tekin til meðferðar. Það er óvenjulegur framgangsmáti.

Nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykkt óbreytt. Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þetta er samþykkt 11. mars 2009 og undir álitið skrifa sá sem hér stendur, Árni Þór Sigurðsson formaður og framsögumaður, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Björn Bjarnason, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir.