136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 91/2008, um grunnskóla, sem flutt er af menntamálanefnd. Frumvarpið er einfalt og felur í sér að ákvæði til bráðabirgða V við lögin falli brott og lögin öðlist þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði V fjallar um að samræmt könnunarpróf í 10. bekk skuli fara fram að vori nú, þ.e. 2009, en við leggjum til að það falli brott. Skýringin á ákvæðinu er sú að þegar við vorum með lögin í vinnslu og samþykktum þau á síðasta vori var talið að of skammur tími væri til að samræmdu könnunarprófin gætu farið fram í haust, eins og gert er ráð fyrir í 39. gr. laganna að samræmd könnunarpróf fari fram á haustin vegna þess að tilgangur þeirra er að afla upplýsinga um stöðu nemenda þannig að skólar, kennarar og nemendur geti brugðist við áður en grunnskóla lýkur.

Álit flestra sem um þessi mál hafa hugsað er að það þjóni ekki tilgangi sínum að leggja slík próf fyrir að vori enda komi þau ekki að því gagni sem þau eru hugsuð. Hugsunin var sú að halda tölfræðinni saman en ljóst liggur fyrir að nemendur eru ekki innstilltir á próf af þessari gerð að vorlagi þegar stutt verður í skólapróf sem mæla það sem skiptir máli varðandi framhaldið. Þess vegna, virðulegi forseti, hefur menntamálanefnd ákveðið að flytja þetta frumvarp og fella þetta ákvæði niður þannig að verði frumvarpið að lögum verður hið fyrsta samræmda könnunarpróf í 10. bekk framkvæmt í haust.

Að lokum, frú forseti, legg ég til að frumvarp þetta gangi til menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.