136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

náms- og starfsráðgjafar.

422. mál
[17:08]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál skuli vera komið fram hér í þinginu og menntamálanefnd á hrós skilið fyrir það. Það er nefnilega þannig að þegar maður fer með bílinn sinn á verkstæði gerir maður kröfu um sérkunnáttu þeirra sem við bílnum taka, að þeir séu sæmilega færir í að finna út hvað er að og leysi svo vandann, hvort sem það er sjálfskipting, blöndungur, startari eða hjöruliðskrossar. Með sama hætti viljum við þegar við förum til augnlæknis eða í sjónmælingu að viðkomandi geti mælt sjónina, sjónskekkju og þess háttar og gefi svo út augnvottorð í framhaldinu sem geri okkur kleift að velja gleraugu við hæfi.

Með sama hætti veita náms- og starfsráðgjafar faglega ráðgjöf um val á námi og störfum. Sú ráðgjöf auðveldar fólki að velja sér viðfangsefni í lífinu og velja nám og störf við hæfi. Grundvallarskilyrði er að fólk þekki eigið áhugasvið, takmarkanir og getu til að stefnumótandi val þeirra verði markvisst og náms- og starfsráðgjafar eru sérfræðingar í að leiða það fram. Þeir eru lykilaðilar varðandi skipulagningu og úrræði til handa þeim sem á þurfa að halda vegna sérþarfa og í skólum landsins er afar mikilvægt að nemendur geti átt trúnaðarmann sem gætir hagsmuna þeirra í hvívetna, bæði þegar erfiðleikar steðja að og eins þegar taka þarf ákvarðanir sem varða framtíðaráform nemenda og eru stefnumarkandi. Þeir eru jafnframt sérfræðingar í námstækni, lestrartækni og glósutækni sem sparar nemendum mikinn tíma og gerir nám þeirra mun markvissara.

Það er staðreynd að hér á landi er brottfall nemenda úr skólum töluvert hátt og hærra en í löndunum sem við kjósum að bera okkur saman við. Það er líka töluvert mikið um það að nemendur sem skrá sig á eina braut í framhalds- eða háskóla skipti um skoðun einhvers staðar í miðju námi og það er óneitanlega krókur sem í einhverjum tilvikum má komast hjá en er dýr fyrir skólakerfið og þar með okkur.

Eins og staðan er eru margir sem gegna stöðu náms- og starfsráðgjafa án þess að hafa sérmenntun í faginu, heldur í einhverju öðru fagi. Ég fagna því að fólk eigi aðgang að fagfólki á ýmsum stöðum, hvort sem það er inni í skólakerfinu, hjá Vinnumálastofnun eða annars staðar, en tel mikilvægt að það sé ekki gert á villandi forsendum. Með lögvernd á starfsheitinu náms- og starfsráðgjafi er tryggt að þegar fólk sækir sér ráðgjöf hjá einhverjum sem ber þann titil sé ljóst að sá hefur tilskilda menntun í þeim fræðum en ekki einhverjum öðrum. Vilji menn ráða annars konar fagfólk til að gegna öðrum störfum innan skólakerfisins er það öldungis frábært en við eigum að bera virðingu fyrir því faglega starfi sem unnið er innan skólanna, hjá Vinnumálastofnun og víðar þar sem náms- og starfsráðgjafa er að finna og gæta þess að nemendur fái eins góða þjónustu og hægt er og þess vegna er mikilvægt að hlutirnir séu kallaðir sínum réttu nöfnum. Náms- og starfsráðgjafar gegna lykilhlutverki við stefnumótandi ákvarðanir sem spara okkur öllum mikla fjármuni með því að beina okkar fólki þá leið sem gefur því bestan árangur, vonandi á sem stystum tíma.

Ég vil því, hæstv. forseti, fagna sérstaklega framlagningu málsins og vona að við berum gæfu til að ljúka því á þessu þingi.