136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

þingmál um veiðar á hrefnu og langreyði.

[14:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa komið upp og hvatt til þess að þessi umræða verði tekin. Það eru líka mjög merkilegir vinklar á þessu máli sem mér finnst Frjálslyndi flokkurinn þurfa að standa skil á vegna þess að þeir skrifa undir þessa tillögu og eru meðflutningsmenn, allur þingflokkur Frjálslynda flokksins. Í þessari þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir að settur verði kvóti á hrefnuveiðar með nákvæmlega sama hætti og settur var kvóti á þorskveiðarnar 1984, með reglugerð og byggt á veiðireynslu áranna 2006–2008.

Virðulegi forseti. Þarna er Frjálslyndi flokkurinn að leggja til að farin verði sama leið við kvótasetningu og þeir hafa gagnrýnt hingað til og þess vegna tek ég undir hvatningu hv. þm. Marðar Árnasonar til hæstv. forseta um að þetta mál verði tekið upp sem fyrst vegna þess að ég tel að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins þurfi að standa skil á þessu hér í umræðu.