136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[14:33]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Svavarssyni, formanni fjárlaganefndar, sem sagði í upphafi ræðu sinnar að um stórt og merkilegt mál væri að ræða. Mér fannst á mörgum hv. þingmönnum í salnum að þeir litu svo á að þetta hefði verið sagt í einhverjum hálfkæringi, en það er svo sannarlega ekki. Hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða sem öll nefndin stendur að og flytur sameiginlega. Það snýst um að Alþingi Íslendinga geti rækt eftirlitshlutverk sitt sem skyldi. Það er ekki síður mikilvægt á þeim tímum sem við lifum í dag að gagnsæi sé mun meira áberandi en verið hefur. Ég verð að segja alveg eins og er að það var býsna sérstök upplifun að taka sæti í fjárlaganefnd Alþingis fyrir tæpum tveimur árum og rekast á þær hindranir sem í raun og veru mættu fjárlaganefndarfulltrúum varðandi upplýsingagjöf um fjármál fyrirtækja. Það var sérkennilegt að upplifa að koma gjörsamlega að lokuðum dyrum þar sem litlar sem engar upplýsingar fengust um þessi E-hluta fyrirtæki.

Þess vegna tel ég þetta mjög mikilvægt mál. Í upptalningu formanns nefndarinnar áðan kom fram að það eru fjölmörg fyrirtæki, þau skipta tugum, sem eru flokkuð í E-hlutanum. Það er vandkvæðum bundið að sjá rökin á bak við það að Landskerfi bókasafna sé t.d. E-hluta fyrirtæki í ríkisreikningi, Matís, Neyðarlínan, Landsvirkjun, Flugstoðir, Austurhöfn, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspóstur og svona mætti lengi telja. Nýjustu dæmin eru auðvitað, eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson gerði grein fyrir, viðskiptabankarnir og síðan Þróunarfélag Keflavíkur. Þróunin á síðustu árum hefur verið sú að heldur hefur fjölgað í hópi þessara fyrirtækja. Ég tel að starfsemi margra fyrirtækjanna sem þarna eru, að sjálfsögðu ekki allra, sé með þeim hætti að mjög mikilvægt er fyrir fjárlaganefndarfulltrúa Alþingis að hafa greiðar upplýsingar um það sem þar er í gangi, svo ég nefni bara Landsvirkjun og Ríkisútvarpið sem tvö dæmi sem ég tel mjög mikilvægt að fjárlaganefndarfulltrúar geti fengið upplýsingar um.

Ég get líka að sjálfsögðu fallist á það að vissulega getur á stundum verið um viðkvæmar upplýsingar að ræða. Það verður þá að meðhöndla þær upplýsingar sem slíkar og það er einmitt gert ráð fyrir því að Ríkisendurskoðun veiti fjárlaganefnd slíkar upplýsingar og geti þá eftir atvikum krafist þess að með þær upplýsingar verði farið sem trúnaðarmál. Það er grundvallarmunur á því eða eins og staðan er í dag að þetta sé algerlega lokað.

Í sjálfu sér þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta, ég fagna því að þetta er komið fram, ekki síst eins og ég sagði í upphafi á þessum sérkennilegu tímum sem við upplifum núna þar sem traust er í algjöru lágmarki á öllum stofnunum samfélagsins, á fyrirtækjum í ríkiseigu, og þess vegna skiptir máli að gagnsæið sé þannig að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar geti fengið þær upplýsingar sem þeir þurfa hverju sinni.